Hvað verður um Brexit?

AFP

Hvað verður núna um Brexit? Þessi spurning brennur vafalaust á mörgum í kjölfar þingkosninganna í Bretlandi í gær þar sem breski Íhaldsflokkurinn tapaði þingmeirihluta sínum. Flokkurinn hefur í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar í lok júní á síðasta ári, þar sem meirihluti breskra kjósenda samþykkti að segja skilið við Evrópusambandið, lagt áherslu á að framfylgja þeirri niðurstöðu undir forystu Theresu May forsætisráðherra.

May boðaði til þingkosninganna um miðjan apríl í þeim yfirlýsta tilgangi að styrkja þingmeirihluta sinn vegna fyrirhugaðra viðræðna við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands. Niðurstaða kosninganna er hins vegar þvert á móti veikari staða Íhaldsflokksins. Líklegt er þó talið að flokkurinn verði áfram í ríkisstjórn með stuðningi Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP) hvort sem sá flokkur tekur sæti í stjórn eða veitir aðeins stuðning sinn.

Eins og mbl.is hefur fjallað um í morgun þarf í raun samstarf eða hlutleysi allra stjórnmálaflokka sem fengu fulltrúa kjörna í neðri deild breska þingsins í gær fyrir utan Íhaldsflokkinn til þess að útiloka íhaldsmenn frá völdum. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn hafi tapað meirihluta sínum er hann eftir sem áður stærsti flokkurinn og er spáð 318 þingsætum af 650. Þannig vantar flokkinn aðeins átta þingmenn til þess að mynda meirhluta.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Hvað Brexit varðar hefur Lýðræðislegi sambandsflokkurinn, sem er flokkur sambandssinna á Norður-Írlandi, lagt áherslu á að tryggja áframhaldandi frjálst flæði fólks á milli Norður-Írlands og Írlands og að Norður-Írland verði áfram innan innri markaðar Evrópusambandsins. Þá hefur flokkurinn lagst gegn því þeirri stefnu Íhaldsflokksins að enginn samningur um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sé betri en slæmur samningur.

Ljóst er að stuðningur við Brexit er mikill í Bretlandi. Þegar May boðaði til þingkosninganna um miðjan apríl bentu skoðanakannanir til þess að forskot Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn væri í kringum 20% en fylgisaukning íhaldsmanna hófst í kjölfar þjóðaratkvæðisins um Evrópusambandið. Fylgið hélst hátt fyrst í stað þar til stefnuskrár flokkanna voru kynntar um miðjan maímánuð og umræðan fór að snúast um annað en Brexit.

Enginn af þeim stjórnmálaflokkum sem fengu þingmenn kjörna í kosningunum í gær hafa talað fyrir því að hætta við Brexit. Frjálslyndir demókratar hafa farið hvað næst því en látið nægja að kalla eftir öðru þjóðaratkvæði um fyrirhugaðan samning á milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgönguna. Þá hefur flokkurinn ásamt fleiri flokkum talað fyrir nánari tengslum við sambandið eftir útgönguna en May hefur boðað.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands. AFP

Hvort Íhaldsflokkurinn kemur til með að fallast á áherslur Lýðræðislega sambandsflokksins á eftir að koma í ljós. Hugsanlegt er hins vegar talið að innan tíðar verði boðað til nýrra þingkosninga þar sem íhaldsmenn tefli fram nýjum leiðtoga í stað May. Þykir Boris Johnson utanríkisráðherra koma þar helst til greina, en ólíkt May beitti hann sér fyrir því að Bretland færi úr Evrópusambandinu í aðdraganda þjóðaratkæðisins á síðasta ári.

Líkt og Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, benti á í samtali við mbl.is í gær er helsta afrek May sem leiðtoga Íhaldsflokksins að sameina flokkinn um þá stefnu að ganga úr Evrópusambandinu. Flokksmenn skiptust í tvær fylkingar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna og var talið að flokkurinn gæti klofnað í kjölfar þess. Mikilvægt þótti fyrir vikið að fá leiðtoga sem hefði ekki verið í forystu útgöngusinna.

Fyrir vikið gæti jarðvegur verið fyrir hendi í dag fyrir leiðtoga úr röðum þeirra sem börðust fyrir útgöngu úr Evrópusambandinu eins og Johnson sem ekki var talinn vera fyrir hendi síðasta sumar þegar May tók við Íhaldsflokknum. Þannig gætu þingkosningarnar bæði leitt til „mýkri“ útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og „harðari“ eftir því með hvaða hætti þróunin verður í framhaldinu. Útgangan sjálf virðist hins vegar ekki í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert