Verður kosið aftur í Bretlandi?

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vangaveltur eru um það hversu lengi …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vangaveltur eru um það hversu lengi hún kann að verða í embætti. AFP

Hugsanlegt er talið að niðurstaða þingkosninganna í Bretlandi, þar sem enginn flokkur náði hreinum meirihluta þingsæta, gæti leitt til þess að lokum að boðað verði til nýrra þingkosninga. Þetta var meðal annars haft eftir Ed Balls, fyrrverandi þingmanni og ráðherra Verkamannaflokksins, á fréttavef Daily Telegraph seint í gærkvöld.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að búist sé við að Íhaldsflokkurinn fái 318 þingsæti þegar endanleg úrslit liggja fyrir en 326 þingsæti þarf til þess að ná meirihluta í neðri deild breska þingsins sem telur 650 sæti. Verði niðurstaðan þessi vantar flokkinn 8 þingsæti. Fyrir kosningarnar var hann með tæpan meirihluta upp á 17 þingmenn. 

Þegar er talað um að Íhaldsflokkurinn þyrfti að öllum líkindum að styðja sig við Lýðræðislega sambandsflokkinn (DUP) á Norður-Írlandi til þess að tryggja sér þingmeirihluta en flokkurinn hlaut 10 þingsæti í kosningunum og bætti við sig tveimur. Lýðræðislegi sambandsflokkurinn þykir íhaldssamur og er helsti flokkur sambandssinna á Norður-Írlandi.

Þarf stuðning eða hlutleysi allra annarra flokka

Takist Theresu May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Íhaldsflokksins, ekki að mynda starfhæfa ríkisstjórn fer keflið væntanlega til Jeremys Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins. Ólíklegt verður hins vegar að teljast að honum takist að mynda ríkisstjórn enda þyrfti til þess í raun stuðning eða hlutleysi allra annarra flokka en Íhaldsflokksins sem fengu fulltrúa kjörna.

Þannig stefnir í að Verkamannaflokkurinn fái 262 þingmenn, Skoski þjóðarflokkurinn fær 35 og Frjálslyndir demókratar tólf. Samanlagt eru það 309 þingmenn. Jafnvel þó stuðningur velska flokksins Plaid Cymru væri fyrir hendi og Græningja færi þingmannafjöldinn einungis í 314. Ekki þyrfti þó að gera ráð fyrir norður-írska flokknum Sinn Fein.

Sinn Fein, sem sögulega er stjórnmálaarmur Írska lýðveldishersins, náði sjö þingsætum og bætti við sig þremur. Þingmenn taka hins vegar ekki þátt í störfum breska þingsins enda er flokkurinn hlynntur því að Norður-Írland sameinist Írlandi.

May boðaði til þingkosninganna til þess að styrkja þingmeirihluta sinn vegna fyrirhugara viðræðna við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands úr sambandinu. Ljóst er að staða hennar í breska þinginu er veikari eftir kosningarnar.

Fyrir vikið þykir sá möguleiki fyrir hendi að innan tíðar boði íhaldsmenn aftur til kosninga og þá að öllum líkindum undir forystu annars leiðtoga. May hefur hins vegar þvertekið fyrir að láta af embætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert