Gerðu vestin úr brúsum og límbandi

Ein af þremur eftirlíkingunum sem hryðjuverkamennirnir notuðu.
Ein af þremur eftirlíkingunum sem hryðjuverkamennirnir notuðu. Ljósmynd/News.met.police.uk

Vesti hryðjuverkamannanna í London sem drápu átta manns fyrir rúmri viku voru eftirlíkingar af sprengjuvestum. Þau voru gerð úr vatnsflöskum, svörtu límbandi og leðurólum. 

„Ég hef ekki séð brögð af þessu tagi áður þar sem hryðjuverkamennirnir skapa algjöran ótta með því að festa eftirlíkingu af sjálfsmorðsvesti á sig,“ sagði yfirlögregluþjónninn Dean Haydon sem fer fyrir rannsókninni. Rannsóknardeildin birti myndir af blóði drifnum vestunum sem voru búin til með vatnsflöskum, svörtu límbandi og leðurólum. 

Haydon hrósaði lögregluþjónunum og fólkinu sem réðst að hryðjuverkamönnunum fyrir hugrekki og sagði að vestin hefðu verið öllum sýnileg. „Ef þú ert að slást gegn eða miða á einhvern sem ber sprengibúnað ertu mjög meðvitaður um að geta látist í sprengingu.

Khuram Butt, Rachid Redouane og Youssef Zaghba drápu átta manns fyrir rúmri viku þegar þeir keyrðu fyrst á vegfarendur og réðust síðan á fleiri með hnífum. Þeir voru skotnir til bana af lögreglu. 

Þetta var þriðja hryðjuverkaárásin í Bretlandi á jafn mörgum mánuðum og er eignuð Ríki íslam. Lögreglan handtók 20 manns í tengslum við árásina en sjö eru enn í varðhaldi. 

Áður hefur verið greint frá að hryðjuverkamennirnir hefðu útbúið birgðir af Molotov-kokteilum og hefðu upphaflega ætlað að leigja vöruflutningabíl í stað sendiferðabílsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert