Samstarfssamningur ekki í höfn

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Viðræðum breska Íhaldsflokksins og Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP) um að veita Íhaldsflokknum stuðning í minnihlutastjórn á breska þinginu er enn ekki lokið þrátt fyrir að breska forsætisráðherraskrifstofan hafi greint frá því í gærkvöldi. Í nótt upplýsti skrifstofa DUP að ekkert samkomulag væri í höfn. Aftur á móti væru viðræður enn í gangi, en engin lokaniðurstaða komin í málið.

Í framhaldinu sendi forsætisráðuneytisskrifstofan frá sér nýja tilkynningu þar sem fram kom að enginn lokasamningur væri á borðinu.

Viðræður Theresu May, formanns Íhaldsflokksins, við DUP eru mjög umdeildar og hafa borist fregnir af því að reiðir ráðherrar í hennar eigin flokki setji sig gegn slíku samstarfi. Er það meðal annars vegna afstöðu DUP gegn fóstureyðingum, réttindum samkynhneigðra og í loftlagsmálum. Hefur því verið rætt um að þeir 10 þingmenn sem setjast á þing fyrir DUP styðji forsætisráðherrann í nokkrum lykilmálum, en að formlegra samstarf verði sett til hliðar.

Ákvörðun um að gera ekki formlegan samstarfssamning gæti hins vegar gert stjórnartíð May öllu erfiðari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert