Tónlist auðveldi Svíum salernisferðir

Það að spila tónlist á salernum getur einnig haft góð …
Það að spila tónlist á salernum getur einnig haft góð áhrif á umhverfið, að mati nemenda. AFP

Cecilia Cato, bæjarfulltrúi í sænska bænum Tingsryd, hefur lagt þá tillögu fyrir bæjarráðið að spiluð verði tónlist á salernum í öllum skólum bæjarins til að auðvelda nemendum salernisferðir. Hún telur að margir nemendur veigri sér jafnvel við að fara á salernið í skólanum því þeir óttist að aðrir heyri í þeim þegar þeir gera þarfir sínar. BBC greinir frá.

„Ég held að áhyggjurnar snúi ekki bara að hljóðum sem geti myndast þegar nemendur gera númer tvö, heldur líka þegar þeir gera númer eitt,“ sagði Cato í samtali við The Local. Er hún þar væntanlega að vísa til hægða og þvagláta.

„Ég starfaði lengi innan skólakerfisins og veit það fyrir víst, af samtölum mínum við nemendur, að þetta er raunverulegt vandamál. Sérstaklega í gagnfræða- og framhaldsskólum. „Ég man sjálf eftir að hafa upplifað þessar áhyggjur þegar ég var unglingur og þegar ég ræði þetta þá viðurkenna margir að hafa haft sömu áhyggjur. Þetta er nefnilega ekki eitthvað sem maður ræðir endilega opinskátt.“

Fréttamaður hjá sænsku sjónvarpsstöðinni SVT ræddi við nemendur í Tingsryd sem staðfestu að þeim þætti óþægilegt að hugsa til þess að aðrir gætu heyrt í þeim á salerninu. Nemendurnir bentu á að það að spila tónlist á salernunum kæmi til með að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, enda þyrfti þá ekki lengur að láta vatnið renna eða fylla klósettið af klósettpappír til að draga úr hljóðum sem geta myndast.

Cato mun hafa fengið hugmyndina þegar hún heimsótta nýjan tónlistarskóla í bænum sem spilar tónlist á salernum skólans. Bæjarráðið mun á næstunni kjósa um tillögu hennar.

mbl.is