Flokkur Macrons á sigurbraut

Emmanuel Macron, forseti Frakklands.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. AFP

Flokkur Emmanuels Macron Frakklandsforseta, Republique en Marche, hlaut um þriðjung atkvæða í fyrri umferð frönsku þingkosninganna sem fram fóru í gær. Síðari umferð kosninganna fer fram næsta sunnudag en búist er við að flokkur forsetans og bandamenn hans muni fá 400-445 þingmenn kjörna af þeim 577 sem sæti eiga í þinginu.

Fari leikar með þeim hætti verður um að ræða sterkasta þingmeirihluta í Frakklandi í 60 ár samkvæmt frétt AFP. Hins vegar varpaði léleg kjörsókn ákveðnum skugga á kosningarnar en aðeins 49% kosningabærra manna mætti á kjörstað. Talið er að skýringarinnar kunni hugsanlega að vera að leita í því að kjósendur andvígir Macron hafi ekki séð ástæðu til þess að mæta á kjörstað í ljósi mikillar sóknar hans sem hafi virst nánast óstöðvandi.

Lýðveldisflokkurinn, helsti hægri flokkur Frakklands, fengu næstmest fylgi eða um 21,5% sem mun líklega skila honum á bilinu 70-130 þingsætum. Flokksmenn höfðu vonast til þess að geta náð vopnum sínum aftur í þingkosningunum segir í fréttinni í kjölfar ósigursins í forsetakosningunum fyrr á árinu þar sem frambjóðandi þeirra, Francois Fillon, komst ekki í aðra umferð kosninganna. Sú virðist hins vegar ekki ætla að verða raunin.

Lýðveldisflokkurinn, eða forveri hans UMP, hlaut 194 þingsæti í þingkosningum 2012 og tapaði þá miklu fylgi. Franska Þjóðfylkingin er talin fá tíu þingsæti miðað við tvö árið 2012. Flokkurinn hlaut 13,2% fylgi í fyrri umferð kosninganna. Sósíalistaflokkurinn, sem var áður annar stærsti flokkur Frakklands, hlaut aðeins 9,5% fylgi. Hins vegar hlutu róttækir vinstrimenn 13,7%.

Sósíalistaflokkurinn var stærsti flokkurinn eftir kosningarnar 2012 með tæplega 30% fylgi og 280 þingsæti. Flokkurinn má því muna sinn fífl talsvert fegurri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert