Frá 4.-18. hæðar á 8 mínútum

Brunarústir Grenfell-turnsins. Talið er að tugir hafi farist í eldsvoðanum.
Brunarústir Grenfell-turnsins. Talið er að tugir hafi farist í eldsvoðanum. AFP

Hljótt er í nágrenni Grenfell-turnsins þennan morguninn. Aðeins örfáa lögreglu- og slökkviliðsmenn má sjá á kreiki. Þriðji dagur björgunarstarfsins er að hefjast og leit að líkum heldur áfram. Um 600 manns bjuggu í húsinu að því er talið er. Staðfest er að sautján létust. Aðeins hefur tekist að bera kennsl á sex lík og óvíst er að það takist nokkurn tímann að bera kennsl á þau öll, svo illa eru þau leikin. Talið er ljóst að ekki munu fleiri finnast á lífi.

Yfirvöld óttast að tala látinna fari yfir sextíu þar sem tuga er enn saknað. Lögreglustjórinn vonast til þess að fjöldi dauðsfalla fari ekki í „þriggja stafa tölu“.

Eldurinn kviknaði á 4. hæð hússins og innan átta mínútna var hann kominn upp á 18. hæð. „Slíkt gerist ekki. Það var eitthvað alvarlegt að í þessum turni,“ segir Lucy Masoud formaður landssambands slökkviliðsmanna í Bretlandi.

Rannsókn að hefjast

Sakamálarannsókn á eldsvoðanum í Grenfell-turninum í Kensington í London hefst í dag. Boðað hefur verið til fjöldamótmæla þar sem réttlætis fyrir íbúa fjölbýlishússins er krafist.

Lögreglustjórinn Stuart Cundy segir að í lögreglurannsókninni verði skoðað hvort glæpsamlegt athæfi hafi átt sér stað er varð til þess að fólkið brann inni. „Ég er ekki að segja að glæpir hafi verið framdir, en þess vegna erum við að fara að rannsaka þetta, til að kanna það.“

Gagnrýnt hefur verið að ekkert vatnsúðarakerfi var í húsinu. Þá hefur val á utanhúsklæðingu, sem nýverið var sett á húsið, einnig verið gagnrýnt. Sérfræðingar segja að hægt sé að klæða hús með efni sem þoli hita og eld betur.

Íbúasamtök þeirra sem búa í húsnæði á vegum Lundúnaborgar krefjast þess að eldvarnaeftirlit verði hert og að allir þeir 4.000 íbúðaturnar, þar sem ekki er að finna úðarakerfi, verði sérstaklega skoðaðir. Þá krefjast íbúar sem og ýmsir stjórnmálamenn þess að klæðningar fjölbýlishúsa verði skoðaðar.

Bjargað af efri hæðum

Slökkviliðsmönnum tókst að bjarga tugum manna úr brennandi húsinu nóttina eftir að eldurinn kom upp. Christos Fairbairn er í þessum hópi. Hann bjó á 15. hæð hússins. Hann ætlaði að flýja en örmagnaðist. Þá kom slökkviliðsmaður að og bjargaði honum út. „Ég ætti ekki að vera hér í dag, en þannig er það nú samt og fyrir það er ég þakklátur,“ sagði Fairbairn í viðtali við BBC. 

Drengur heldur á kertum fyrir utan kirkju í Notting Hill …
Drengur heldur á kertum fyrir utan kirkju í Notting Hill þar sem fórnarlamba eldsvoðans var minnst í gær. AFP

Elpidio Bonifacio bjó á 11. hæðinni. Hann er sjóndapur maður á sjötugsaldri. Hann sást veifa peysu út um glugga íbúðarinnar sinnar. Slökkviliðsmenn komu á vettvang og björguðu honum út. Sonur hans segir hann nú liggja á gjörgæslu. „Orð fá ekki lýst því hugrekki sem slökkviliðið sýndi er það hætti lífi sínu til að koma honum út,“ segir sonurinn. 

Natasha Elcock varð innlyksa í íbúð sinni í Grenfell-turninum ásamt kærasta sínum og sex ára gamalli dóttur. Fjölskyldunni var sagt að halda kyrru fyrir íbúðinni. Elcock skrúfaði frá vatnskrönunum á baðherberginu til að koma í veg fyrir að reykur fyllti heimilið. „Baðherbergið var á floti. Þannig hélst íbúðin full af raka. Það gæti hafa bjargað lífi okkar.“

Hitti ekki íbúa og ættingja

Í fréttum í Bretlandi hefur komið fram að forsætisráðherrann Theresa May hafi heimsótt vettvang brunans í gær, líkt og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, og Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, gerðu. Ólíkt þeim tveimur ræddi May hins vegar ekki við íbúa sem komust lífs af eða fjölskyldur þeirra sem misstu ástvini. Talsmaður ráðherrans segir að tilgangur heimsóknar May hafi verið sá að fá upplýsingar um neyðaraðstoðina og að sjá til þess að viðbragðsaðilar hefðu það sem til þyrfti. 

May kom síðar um kvöldið fram í sjónvarpi þar sem hún fór fram á að sakamálarannsókn yrði gerð á eldsvoðanum.

Greinin er byggð á fréttum BBC, Sky, Guardian og Telegraph.

Sadiq Khan borgarstjóri Lundúna faðmar íbúa Grenfell-turnsins.
Sadiq Khan borgarstjóri Lundúna faðmar íbúa Grenfell-turnsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert