Ólýsanleg eyðilegging

Lögreglan í Lundúnum hefur birt ljósmyndir og myndskeið sem voru tekin innan í Grenfell-háhýsinu þar sem stórbruni varð á miðvikudag. Eins og myndirnar bera með sér var eyðileggingin gríðarleg og í raun erfitt að lýsa því sem fyrir augu ber.

Hér má sjá eina af ljósmyndunum sem lögreglan í Lundúnum …
Hér má sjá eina af ljósmyndunum sem lögreglan í Lundúnum hefur birt. AFP

Íbúðir í háhýsinu, sem voru eitt sinn heimili fólks, eru nú sótsvartar brunarústir. Byggingin, sem telur 24 hæðir, er mjög illa farin og stendur sem minnisvarði um hræðilegan atburð.

Á sumum ljósmyndum er erfitt að átta sig á því á hvað er verið að horfa, en á sumum stöðum sést t.d. baðkar, þvottavél eða vaskur, eitthvað sem minnir menn á venjuleg heimili. 

Húsið er gjörónýtt.
Húsið er gjörónýtt. AFP

„Það er nánast ekki hægt að lýsa aðstæðum á vettvangi eftir brunann,“ segir lögreglustjórinn Stuart Cundy. Hann segir enn fremur að leit í byggingunni muni standa yfir í nokkrar vikur. 

„Við verðum einnig að búa fólk undir þann hræðilega veruleika að ekki verður hægt að bera kennsl á suma einstaklinga; slíkur var eldsvoðinn.“

Greint var frá því í gær að 58 manns hefðu látist í brunanum. Cundy segir aftur á móti að sú tala muni hækka. Enn er verið að leita að fólki sem er saknað og ekki vitað hvort það hafi farist í eldsvoðanum eða komist út en ekki látið vita af sér. 

Myndirnar sem lögreglan hefur birt voru teknar inni í íbúðum þar sem vitað er að allir komust út heilu og höldnu. 

Hér má sjá inngang fjölbýlishússins.
Hér má sjá inngang fjölbýlishússins. AFP

Almenningur er mjög reiður út í stjórnvöld og þá hefur Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, gagnrýnt það hvernig yfirvöld brugðust við í kjölfar eldsvoðans. 

„Margir í þessu samfélagi hafa það á tilfinningunni að það sé komið illa fram við íbúana af því að sumir eru fátækir,“ sagði borgarstjórinn.

Hann sagði enn fremur að koma hefði mátt í veg fyrir þennan harmleik. Mistök og vanræksla stjórnmálamanna ætti hins vegar þátt í því sem gerðist. 

Neðri hæðir Grenfell-turnsins urðu ekki eldinum að bráð.
Neðri hæðir Grenfell-turnsins urðu ekki eldinum að bráð. AFP

Grenfell-turninn var reistur árið 1974. Skammt er síðan ráðist var í endurbætur og ný klæðning sett á húsið, en margir eru á þeirri skoðun að klæðningin sé ástæða þess að eldurinn breiddist út jafn hratt og raun ber vitni. 

Ríkisstjórnin hefur sett á laggirnar sérstakan fimm milljóna punda (um 646 milljónir króna) neyðarsjóð fyrir íbúa hússins. Hvert heimili fær að minnsta kosti 5.500 pund (um 710.000 kr.) frá ríkinu. Þegar er byrjað að greiða út til einstaklinga. 

Íbúar í hverfinu krefjast réttlætis fyrir íbúana.
Íbúar í hverfinu krefjast réttlætis fyrir íbúana. AFP
Minnisvarði um gríðarlega eyðileggingu og manntjón.
Minnisvarði um gríðarlega eyðileggingu og manntjón. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert