Földu sig í vatnstanki og lifðu af

Íbúar þorpsions Mega Fundeira fylgjast með skógareldum skammt frá heimilum …
Íbúar þorpsions Mega Fundeira fylgjast með skógareldum skammt frá heimilum sínum. AFP

Tólf komust lífs af í skógareldunum í Portúgal með því að leita skjóls inni í vatnstanki. Fólkið varð innlyksa er eldhafið umkringdi þorp  þeirra. 

Fólkið, þeirra á meðal 95 ára gömul, fötluð kona, hafðist fyrir í tankinum í yfir sex klukkustundir. 

„Ef við hefðum ekki gert þetta hefðum við öll dáið,“ segir einn úr hópnum í samtali við BBC. 

Að minnsta kosti 62 eru látnir eftir skógareldana í Portúgal. Margir létust í bílum sínum á vegum. Eldarnir urðu til þess að fólk á mörgum vegköflum komst ekki leiðar sinnar. Sumir þeirra sem létust voru að flýja eldana sem náð höfðu til þorpa þeirra og bæja.

Enn loga eldar á mörgum svæðum. 

„Eins og í hryllingsmynd“

Fólkið sem faldi sig í vatnstankinum býr í þorpinu Nodeirinho sem stendur við IC8-hraðbrautina. Eigandi tanksins, Maria do Céu Silva, fékk hugmyndina að því að leita skjóls í honum er hún var að reyna að bjarga fatlaðri móður sinni.  „Maðurinn minn sagði mér að setja hana út í bíl en hún gat ekki gengið þangað og sagði: „Leyfðu mér að deyja hérna á gólfinu“,“ segir Silva í samtali við dagblaðið Correio da Manhã.

„En með hjálp sonar míns komum við henni hingað [í tankinn].“ Hún segir mikinn vind hafa myndast við bæ sinn og að þakið hafi losnað af húsinu. „Þetta var eins og í hryllingsmynd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert