Litrík og fjölbreytt flóra á þingi

AFP

Franska þingið mun breyta töluvert um svip eftir kosningarnar í gær en mun fleiri konur verða á þingi eftir kosningar auk þess sem ungt fólk verður áberandi í þingsalnum. Sá yngsti er 23 ára gamall.

Lýðveldishreyfingin, REM, stjórnmálaflokkur forseta Frakklands, Emmanuel Macron, og samstarfsflokkur hans, MoDem fengu 351 sæti af 577 í seinni umferð þingkosninganna.

AFP

Meðalaldur þingmanna fer úr 54 árum þegar kosið var til þings í Frakklandi árið 2012 í 48 ár og átta mánuði.

Meðalaldur þingmanna France Insoumise, sem er það framboð sem er lengst til vinstri, er lægstur af þingflokkum á þinginu nú en þar er meðalaldur þingmanna 43 ár og fjórir mánuðir. Meðalaldur þingmanna REM er 45 ár og fimm mánuðir. Þingmenn Þjóðfylkingarinnar, Front National, eru að meðaltali 48 ára og átta mánaða gamlir en Repúblikanar á þingi eru að meðaltali 52 ára.

Ludovic Pajot, 23 ára, verður yngstur á franska þinginu.
Ludovic Pajot, 23 ára, verður yngstur á franska þinginu. AFP

Þingmaður FN, Ludovic Pajot er yngstur eða 23 ára gamall sem þýðir að hann hlýtur titilinn Le benjamin de l'Assemblée Nationale sem er lýsing Frakka á yngsta þingmanni landsins.

Pajot er þingmaður í Pas-de-Calais héraði, ekki langt frá bænum Henin-Beaumont þar sem Marine Le Pen, leiðtogi FN, bauð sig fram í ár. Hún var kjörin á franska þingið í fyrsta skipti í gær.

Sacha Houlié, þingmaður REM.
Sacha Houlié, þingmaður REM. AFP

Tveir þingmenn REM eru á þrítugsaldri, Sacha Houlié, sem er 28 ára Typhanie Degois er 24 ára.

Typhanie Degois, þingmaður REM.
Typhanie Degois, þingmaður REM. Twitter

Elstur í hópi þingmanna er repúblikaninn Bernard Brochand en hann er 79 ára gamall. Þetta er í fimmta skiptið sem hann er kjörinn á þing í Cannes.

Bernard Brochand.
Bernard Brochand. Wikipedia/Alain Zirah

Aldrei áður hafa jafn margar konur verið kjörnar á þing í Frakklandi en þær verða alls 223 talsins (voru 155). Þetta þýðir að hlutfall kvenna á þingi er 38% en var 27%. Þetta ætti ekki að koma á óvart enda hefur Macron ekki farið leynt með þá skoðun sína að fjölga eigi konum á þingi. 47% þingmanna REM eru konur og 41% þingmanna France Insoumise eru konur. 38% þingmanna Sósíalistaflokksins eru komur en flokkurinn fékk 29 kjörna á þing.

Með lækkandi meðalaldri fækkar þingmönnum sem eru komnir á eftirlaunaaldur, fara úr 106 í 41. 

Forstjórum og framkvæmdastjórum einkafyrirtækja fjölgar og verða þeir 41 í stað 19 áður. Þingmenn sem koma úr eigin rekstri fjölgar úr 74 í 103 og fyrrverandi kennurum fjölgar einnig á þingi, fara úr 47 í 61.

Eitt vekur talsverða athygli er nýliðun á þingi því aðeins 140 af þeim 345 þingmönnum sem sóttust eftir endurkjöri hlutu náð fyrir augum kjósenda. Því eru 424 nýliðar á franska þinginu. Allir þingmenn France Insoumise eru nýliðar, 91% af þingmönnum REM og 40% af þingmönnum repúblikana og 6% sósíalista. 

Cédric Villani.
Cédric Villani. AFP

Eins má búast við því að þingið verði ögn líflegra á að líta. Meðal nýrra þingmanna er stærðfræðingurinn Cédric Villani, sem er 43 ára gamall og þjóðþekktur fyrir kenningar sínar. Hann er prófessor í stærðfræði í Lyon og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín á sviði fræðigreinarinnar. Hann var kjörinn á þing fyrir úthverfi Parísar, Essonne.

Annar þingmaður REM, Mounir Mahjoubi, hefur einnig vakið töluverða athygli en hann er yngsti ráðherrann í ríkisstjórn Frakklands (33 ára). Mahjoubi var kjörinn á þing fyrir 19 hverfi Parísar.

Mounir Mahjoubi.
Mounir Mahjoubi. AFP

Síðan má ekki gleyma kvikmyndaleikstjóranum François Ruffin, sem meðal annars er þekktur fyrir myndina Merci Patron!. Ruffin var kjörinn á þing fyrir France Insoumise.

Francois Ruffin.
Francois Ruffin. AFP

Að lokum má nefna fyrrverandi yfirmann sérsveitar frönsku lögreglunnar, Jean-Michel Fauvergue, en hann var kjörinn á þing fyrir REM í Seine-et-Marne með 67,19% atkvæða.

Jean-Michel Fauvergue.
Jean-Michel Fauvergue. AFP
AFP
mbl.is
SÆT ÍBÚÐ TIL LEIGU Í VENTURA FLORIDA
GOLF & SÓL . Vel búin & björt 2 svh & 2 bh íbúð á 18 holu golfvallarsvæði. 2 sun...
Sumardekk 15 tommu
Ágætis sumardekk til sölu. 195/60R15 Verðhugmynd 22. þús Hægt að hafa sam...
Kolaportið alltaf gott veður!
Góða veðrið og góða skapið er í KOLAPORTINU!...
 
Tillaga að deiliskipulagi
Tilkynningar
Breiðdalshreppur Tillaga ...
Hádegisfundur
Fundir - mannfagnaðir
ses.xd.is Samtök eldri sjálfstæði...
Skipulagsmál
Tilkynningar
Rangárþing ytra Auglýsing um skipulags...
Samkoma
Félagsstarf
Fjáröflunarsamkoma Kristniboðsfélags k...