Ólík sýn á árásarmanninn

Darren Osborne, sem hefur átt erfitt að sögn fjölskyldu, áreitti börn sem eru múslimar en fjölskylda hans neitar því að honum hafi verið í nöp við múslima. Osborne er 47 ára fjögurra barna faðir, sem er sakaður um að hafa keyrt vísvitandi inn í hóp fólks skammt frá moskunni í Finsbury Park í London í gær. Einn lést í árásinni og 11 særðust.

Lögreglan í Bretlandi er að yfirheyra Osborne sem að sögn vitna kallaði að hann vildi drepa alla múslima áður en hann var handtekinn eftir árásina. Nágrannar Osborne í Cardiff segja að honum hafi verið hent út af hverfiskránni á laugardag fyrir að hafa áreitt múslima sem þar voru. Osborne var drukkinn.

„Hann formælti múslimum og sagði að hann myndi valda þeim skaða,“ hefur The Sun eftir gesti á kránni.

Nágrannakona hans, Khadijeh Sherizi, sem er múslimi, segir að fjölskyldan hafi aldrei lent í neinum erfiðleikum með Osborne fyrr en um helgina þegar hann áreitti börn hennar. Samkvæmt Guardian á Osborne að hafa móðgað son hennar með óviðurkvæmilegu orðbragði um að hann væri vanskapaður. 

Aðrir nágrannar segja að hegðun Osborne hafi tekið breytingum að undanförnu og að hann hafi búið í tjaldi úti í skógi eftir að hann og kona hans skildu.

Sherizi segir í samtali við AFP að það hafi komið henni algjörlega í opna skjöldu þegar hún sá hver árásarmaðurinn var. Hann hafi alltaf verið ósköp eðlilegur.

Fjölskylda Osborne tekur undir þetta og neitar fréttum að hann sé rasisti og systir hans segir að Osborne hafi aldrei sýnt nokkurn áhuga á stjórnmálum. „Hann hefur örugglega ekki hugmynd um hver er forsætisráðherra.“

mbl.is