„Sonur minn er ekki hryðjuverkamaður“

Dar­ren Os­borne er 47 ára gam­all og fjög­urra barna faðir.
Dar­ren Os­borne er 47 ára gam­all og fjög­urra barna faðir.

Móðir árásarmannsins sem ók sendi­bif­reið inn í hóp fólks fyr­ir utan Fins­bury Park-mosk­una í London á sunnudag segir son sinn eiga við vandamál að stríða, en hann sé ekki hryðjuverkamaður. 

Einn er lát­inn og tíu eru slasaðir eft­ir árás­ina, sem lögregla tilkynnti strax í upphafi að væri hryðjuverk. Árásarmaðurinn heit­ir Dar­ren Os­borne og er frá Car­diff í Wales. Os­borne er 47 ára gam­all og fjög­urra barna faðir. Veg­far­end­ur yf­ir­buguðu Os­borne og héldu hon­um föst­um þar til lög­regl­an kom á vett­vang en þeir segja að hann hafi sagst vilja drepa alla múslima.

Samkvæmt frétt Sky-News segist móðir hans, Christine, vera að ganga í gegnum „martröð allra mæðra“. Þá segir hún son sinn eiga við vandamál að stríða. „Sonur minn er ekki hryðjuverkamaður. Hann er bara maður sem á við vandamál að stríða og ég veit ekki hvernig ég á að eiga við þetta allt saman.“

„Hann hefur aldrei talað um hryðjuverkaárásir við mig eða sagt ljóta hluti um múslíma - aldrei nokkurn tímann og það er sannleikurinn.“ Þá segir hún hug sinn vera hjá þeim sem urðu fyrir árásinni og aðstandendum þeirra.

Þá hefur Ellis Osborne, frændi mannsins, sagt að hann hafi aldrei viðrað neinar rasískar skoðanir. Í yfirlýsingu fyrir hönd fjölskyldunnar segir hann fjölskylduna vera slegna yfir fréttunum. „Þetta er óskiljanlegt. Við erum niðurbrotin vegna fjölskyldnanna og hugur okkar er hjá þeim sem urðu fyrir árásinni.“

Auk þess hafa nágrannar mannsins tjáð sig við fjölmiðla og sagt hann hafa verið venjulegan heimilisföður. 

Eins og mbl.is sagði frá í gær hafa breskir fjöl­miðlar birt mynd­band sem sýn­ir al­menn­ing yf­ir­buga Osborne, en hann hafði reynt að flýja vett­vang. Í mynd­band­inu má sjá fólk halda hon­um niðri þar til lög­regla mætti á vettvang.

Fólkið sem var sam­an­komið fyrir utan moskuna var að aðstoða mann sem hafði hnigið niður á gang­stétt­ina. All­ir þeir sem urðu fyr­ir bíln­um eru mús­lím­ar.

Frétt Sky-News.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert