Njósnuðu um Hvíta húsið

AFP

Þýska leyniþjónustan fylgdist með fjölmörgum opinberum og einkafyrirtækjum í Bandaríkjunum árum saman. Þar á meðal Hvíta húsinu, samkvæmt frétt Spiegel í dag.

Samkvæmt Spiegel hafa blaðamenn tímaritsins séð gögn sem sýna að leyniþjónustan hafði yfir lista að ráða þar sem fram koma upplýsingar um umfangsmiklar hleranir á árunum 1998 til 2006. Má þar nefna fax- og símanúmer. Netföng og fleira. Um er að ræða stofnanir eins og bandaríska flug- og sjóherinn, NASA, ráðuneyti og mannréttindasamtökin Human Rights Watch.

Eins var fylgst með hundruð erlendra sendiráða, alþjóðlegum stofnunum eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fleira.

Leyniþjónustan, BND, neitar að tjá sig um frétt Spiegel en Þjóðverjar brugðust ókvæða við þegar í ljós kom í leyniskjölum Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna sem Edward Snowden lak árið 2013 að fylgst hafði verið með Angelu Merkel kanslara og fleirum þekktum Þjóðverjum.

Merkel, sem ólst upp í Austur-Þýskalandi þar sem njósnir á vegum ríkisins voru daglegur viðburður, sagði ítrekað á þeim tíma að Þjóðverjar fylgdust ekki með vinaþjóðum. Síðar kom í ljós að BND hafði veitt bandarískum leyniþjónustum aðstoð við að njósna um evrópskar vinaþjóðir. 

mbl.is