„Segið nafn hennar!“

Mótmælendur segja nauðsynlegt að lögreglan breyti vinnubrögðum sínum.
Mótmælendur segja nauðsynlegt að lögreglan breyti vinnubrögðum sínum. AFP

Hópur reiðra mótmælenda arkaði frá fjölbýlishúsinu þar sem Charleen Lyles bjó og niður í miðbæ Seattle í gærkvöldi. Lyles var ólétt þegar hún var skotin til bana af lögreglumanni. Mótmæli fóru einnig fram í fleiri borgum Bandaríkjanna.

„Segið nafn hennar!“ hrópaði leiðtogi mótmælagöngunnar. „Charleena!“ sagði þá hópurinn. Hópurinn krefst þess að fordómum verði útrýmt en Charleen var svört.

Lögreglan segir að tveir lögregluþjónar hafi skotið Lyles eftir að hún ógnaði þeim með hnífi á sunnudag. Fjölskylda hennar gagnrýnir lögregluna harðlega fyrir að hafa beitt vopnum gegn henni. Lyles var fjögurra barna móðir.

„Enn er lögreglan að skjóta svarta karlmenn og konur til bana,“ segir Michelle Sarju, sem var í hópi mótmælenda í gær. Hún segir komið að því að lögreglan verði að fara í ítarlega naflaskoðun og gera breytingar á aðferðum sínum. Ed Murray, borgarstjóri Seattle, segir atvikið átakanlegt og hefur heitið því að það verði rannsakað ítarlega. 

Þrjú börn í íbúðinni

Atburðarásin að sögn lögreglu er sú að Lyles, sem hefur áður komist í kast við lögin, hringdi í neyðarlínu á sunnudagskvöld og bað um aðstoð vegna innbrots á heimili hennar. Tveir lögregluþjónar mættu á staðinn og segja þeir hana hafa ógnað sér með hnífum. 

Á myndböndum úr öryggismyndavélum sem lögreglan hefur birt sést enginn fara inn og út úr íbúð Lyles þennan dag nema hún sjálf. Á hljóðupptöku af vettvangi má svo heyra að eftir að lögreglumenn mættu á svæðið eru samskiptin á rólegum nótum í fyrstu. Svo kemur að því að lögreglumaður skipar Lyles að fara frá sér og að lokum má heyra skotum hleypt af. Þrjú börn voru í íbúðinni er Lyles var skotin.

Það sem fólk gagnrýnir er að lögreglumennirnir hafi strax gripið til skotvopna í stað þess að reyna að yfirbuga konuna með öðrum hætti. 

Lögreglumennirnir tveir sem sinntu útkallinu hafa verið leystir tímabundið frá störfum á meðan rannsókn málsins fer fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert