Banna Pride-göngu í Istanbúl

AFP

Tyrknesk yfirvöld hafa bannað árlega Gay Pride-göngu í Istanbúl, sem átti að fara fram á morgun, vegna öryggisráðstafana. 

Skipuleggjendur göngunnar höfðu boðað til hennar klukkan 17 að staðartíma á morgun við Taksim-torgið. Í yfirlýsingu frá borgarstjórnarskrifstofu kemur hins vegar fram að torgið sé ekki staður fyrir fjöldasamkomur.

„Það er ekkert leyfi fyrir kröfugöngu eða skrúðgöngu á þessum tíma vegna öryggis ferðamanna á svæðinu og allsherjarreglu,“ segir í yfirlýsingunni.

Yfirvöld hafa jafnframt hvatt borgarbúa til að fara að öryggisviðvörunum og sniðganga gönguna. 

Á síðasta ári var gangan einnig bönnuð þar sem yfirvöld töldu hættu vera á hryðjuverkaárásum samtakanna Ríkis íslams. Fjölmargir hunsuðu hins vegar bannið og komu saman samt sem áður, en mættu táragasi frá lögreglu.

Líklegt er að hinsegin baráttufólk muni gera slíkt hið sama í ár og safnast saman við torgið þrátt fyrir bannið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert