Tugir neita að yfirgefa turnana

Chalcots-turnþyrpingin er ekki talin örugg vegna klæðningarinnar. Íbúum hefur verið …
Chalcots-turnþyrpingin er ekki talin örugg vegna klæðningarinnar. Íbúum hefur verið gert að yfirgefa heimili sín. AFP

650 Lundúnabúum var gert að yfirgefa íbúðir sínar í dag vegna þess að brunavörnum í húsum þeirra er ábótavant. Að minnsta kosti 83 harðneituðu að yfirgefa heimili sín.

Rýmingin er gerð í kjölfar eldsvoðans mikla í Grenfell-turninum. Talið er að klæðingin á turninum hafi orsakað það að eldurinn breiddist mjög hratt út og að húsið varð alelda á nokkrum mínútum. 

Borgaryfirvöld rannsaka nú klæðningar á öðrum húsum, m.a. háhýsum. Í kjölfar þeirrar rannsóknar var ákveðið að rýma fjögur af fimm háhýsum Chalcots-samstæðunnar í Camden í Norður-London. Klæðingin á þeim turnum er svipuð þeirri sem var utan á Grenfell-turninum. 

Talsmaður slökkviliðsins í London segir að mörgu sé ábótavant í eldvörnum háhýsanna og því hafi ekki annað þótt mögulegt en að rýma þá.

Í fyrstu voru íbúar allra Chalcots-turnanna fimm beðnir að yfirgefa íbúðir sínar en síðan var ákveðið að leyfa íbúum eins þeirra að snúa aftur heim. Íbúar voru alls ekki sáttir við brottflutninginn og margir neituðu að fara. Þeim var boðið bráðabirgðahúsaskjól, m.a. á hótelum. 

Renee Williams er níræð og býr í einum turnanna. Hún segist ekki hafa fengið neinn fyrirvara. „Enginn frá hinu opinbera sagði okkur hvað væri í gangi, ég sá þetta í sjónvarpinu svo ég pakkaði ofan í tösku,“ sagði hún. „En nú eru þeir að segja okkur að við getum ekki snúið aftur heim í tvær til fjórar vikur. Það er ekkert skipulag á þessu og mikið öngþveiti.“

Formaður hverfisráðsins í Camden segir að vissulega sé þetta erfitt fyrir alla en að lykilatriði sé að allir séu öruggir. Hverfisráðið hefur tekið frá hótelherbergi víðs vegar um London fyrir íbúa turnanna fjögurra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert