Evrópuherinn kemur að lokum

Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, ritar nafn sitt í gestabók Höfða. …
Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, ritar nafn sitt í gestabók Höfða. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, fylgist með. mbl.is/Hjörtur

„Ég er sannfærður um að það sé í þágu hagsmuna bæði Evrópusambandsins og Bretlands að ná samkomulagi sem miðar að því að vera í eins nánum tengslum og mögulegt er. Það sem skiptir máli fyrir okkur innan sambandsins er að sundra ekki þeim 27 ríkjum sem verða áfram þar innanborðs. Bretland er auðvitað mikilvægt samstarfsríki og ég vona að mögulegt verði í viðræðunum að halda eins nánum tengslum við þá og mögulegt er.“

Þetta sagði Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, í samtali við mbl.is spurður um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en ráðherrann var staddur hér á landi á dögunum vegn fundar utanríkisráðherra ríkja Eystrasaltsráðsins. Gabriel sagði þó ljóst að Bretland yrði ekki áfram innan sambandsins. Það væri að hans mati ekki mögulegt eins og staðan væri í dag. En hugsanlega yrðu Bretar áfram hluti af innri markaði þess.

Hins vegar yrði Bretland þá að samþykkja grundvallarreglu Evrópusambandsins um frjálst flæði fólks sem og lögsögu Evrópudómstólsins, æðsta dómstóls sambandsins. „En kannski gera þeir sér nú grein fyrir kostum Evrópusambandsins og innri markaðarins í skýrara ljósi en áður,“ sagði ráðherrann ennfremur. Spurður áfram hvort hann ætti von á fleiri ríki segðu skilið við sambandið í kjölfar útgöngu Bretlands svaraði Gabriel því neitandi.

„Evrópusambandið á við sín vandamál að stríða. Einkum pólitískt séð. En öllum er ljóst að kostirnir fyrir alla vega þyngra en ókostirnir. Bretar munu gera sér grein fyrir því líka,“ sagði þýski utanríkisráðherrann. Miklu skipti að gera íbúum Evrópusambandsins ljósa kosti sambandsins. Mörg af þeim vandamálum sem ríki sambandsins stæðu frammi fyrir væru þess eðlis að þau gætu ekki staðið vörð um hagsmuni íbúa sinna ein síns liðs.

Dagur B. Eggertsson og Sigmar Gabriel í anddyri Höfða.
Dagur B. Eggertsson og Sigmar Gabriel í anddyri Höfða. mbl.is/Hjörtur

„Við erum of oft að stýra málum í smáatriðum í gegnum Evrópusambandið og við ættum að einbeita okkur að stóru málunum þar sem einstök ríki geta ekki staðið vörð um hagsmuni íbúa sinn ein á báti. Sem dæmi er fjölgar íbúum Asíu, Bandaríkjanna og Afríku á meðan íbúum Evrópu fækkar. Innan 10-20 árum munu börnin okkar og barnabörn einungis hafa rödd á alþjóðavettvangi ef það er sameiginleg evrópsk rödd,“ sagði hann ennfremur.

„Jafnvel rödd Þjóðverja myndi ekki heyrast í alþjóðasamfélaginu ef við værum einir á báti. Þess vegna þurfum við sameiginlega evrópska rödd. Þannig verðum við hluti af alþjóðlega stjórnmálasviðinu. Við kunnum að skipta máli efnahagslega en ekki stjórnmálalega án hennar. Til að mynda varðandi mál eins og loftlagsbreytingar og friðargæslu. Spurður um hugmyndir um evrópskan her sem hafa nýverið verið viðraðar á nýjan leik sagði Gabriel:

„Við verðum að skipuleggja varnarmálin skref fyrir skref. Við munum ekki koma á evrópskum her á morgun. Það sem er mögulegt að koma á, til skemmri tíma litið, er nánara samstarf á milli evrópskra herja. Það er algerlega nauðsynlegt að samræma hernaðargetuna og herina. Það mun að lokum leiða til evrópsks hers en það er annað eða þriðja skrefið,“ sagði ráðherrann.

Sigmar Gabriel og Dagur. B. Eggertsson.
Sigmar Gabriel og Dagur. B. Eggertsson. mbl.is/Hjörtur

Spurður áfram um efnahagserfiðleikana á evrusvæðinu rifjaði hann upp sýn Helmuts Kohl, fyrrverandi kanslara Þýskalands, á æskilega þróun þess. Kohl hafi sagt að án eins ríkis (e. political union) myndi myntbandalag ekki virka sem skyldi. Hann hafi vonað að sú þróun myndi eiga sér stað af sjálfu sér þegar öllum væri ljóst að myntbandalag eitt og sér gengi ekki. Það hafi hins vegar ekki gerst. En tímabært væri að minnast þessa sjónarmiðs Kohls.

„Við þurfum að koma á meiri samruna í efnahags- og peningamálum innan myntbandalagsins og þá munum við sigrast á erfiðleikunum,“ sagði Gabriel. Varðandi fríverslunarviðræðurnar á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sagðist ráðherrann telja að þær yrðu að skila árangri. Fyrst og fremst vegna þess að það skipti máli að þessir tveir aðilar ákvörðuðu viðmiðin þegar kæmi að heimsviðskiptunum. Ef sú yrði ekki raunin myndu aðrir gera það. Til að mynda Kína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert