Telur yfirvöld leyna fjölda látinna

Þingmaðurinn telur að lögregla vilji ekki opinbera tölur yfir fjölda …
Þingmaðurinn telur að lögregla vilji ekki opinbera tölur yfir fjölda látinna strax. AFP

Þingmaður breska Verkamannaflokksins telur það hugsanlegt að yfirvöld leyni raunverulegum fjölda þeirra sem fórust í brunanum í Grenfell-turninum til að forðast uppþot og óeirðir. Sky fréttastofan greinir frá.

Þingmaðurinn David Lammy varpaði þessu fram í kjölfar þess að íbúar í turninum rituðu Theresu May forsætisráðherra bréf þar sem þeir krefjast þess að ítarleg rannsókn á brunanum fari fram.

Yfirvöld hafa gefið út að 79 hafi látist í brunanum en óttast er að sú tala eigi enn eftir að hækka. Lammy, sem missti sjálfur vin í brunanum, óttast að yfirvöld vilji ekki segja sannleikann um fjölda látinna stax.

„Það er sagt að ef tölur yfir fjölda látinna eru gefnar út of snemma, þá geti það valdið óeirðum,“ sagði hann í samtali við BBC2.

„Sannleikurinn er sá að nú er athygli fjölmiðla farin að beinast annað,“ bætti hann við.

Lammy sagði margt benda til að þessar tölur stemmdu ekki, enda hefði hann heyrt að allt að 40 manns hefðu verið í einni íbúðinni vegna Ramadan, föstuhátíðar múslima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert