Biðlar til Mannréttindadómstólsins

Anders Behring Breivik hefur breytt nafni sínu í Fjotolf Hansen. …
Anders Behring Breivik hefur breytt nafni sínu í Fjotolf Hansen. Hann hefur aldrei iðrast gjörða sinna. AFP

Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik, sem varð 77 að bana í Noregi árið 2011, hefur farið þess á leit við Mannréttindadómstól Evrópu að hann úrskurði um aðstæður sínar í fangelsi, sem hann telur „ómannúðlegar.“

Breivik, sem segir einangrun sína brjóta gegn mannréttindum sínum, hefur leitað allra leiða til að fá kröfur sínar í gegn í norska dómskerfinu en hæstiréttur landsins neitaði í júní að taka mál hans fyrir.

Oystein Storrvik, lögmaður fjöldamorðingjans, hefur þess vegna skotið málinu til Mannréttindadómstólsins. Segir hann norska ríkið hafa brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu, sem bannar „ómannúðlega“ og „niðurlægjandi“ meðferð og tryggir réttinn til einkalífs og samskipta.

Spurningin sem dómstóllinn hefur verið beðinn um að úrskurða um snýr aðallega að einangrun Breivik í fangelsinu þar sem hann dvelur.

Norska ríkið hefur hafnað staðhæfingum morðingjans og segir hann hafa fengið „VIP-meðferð“. Hann búi í þremur vel búnum fangaklefum og hafi reglulega aðgang að starfsmönnum fangelsisins og lögmanni sínum.

Breivik, sem er 38 ára, hefur breytt nafni sínu í Fjotolf Hansen. Hann afplánar 21 árs fangelsisdóm fyrir voðaverkin í Osló og Útey en yfirvöld geta framlengt dóminn eins og þurfa þykir.

Fjöldamorðinginn hefur aldrei iðrast gjörða sinna og sagðist m.a. hafa myrt fórnarlömb sín vegna þess að þau aðhylltust fjölmenningarstefnu. Flest voru ungmenni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert