Vonast til að endurheimta ástvini

Anastasiya Chub heldur á mynd af eiginmanni sínum.
Anastasiya Chub heldur á mynd af eiginmanni sínum. AFP

Í ágúst 2014 gat Anastasiya Chub ekki beðið eftir því að deila góðu fregnunum með eiginmanni sínum; hún var ólétt að öðru barni þeirra hjóna. Gleði hennar vék hins vegar skjótt fyrir sorg og örvæntingu þegar hún komst að því að Sergiy, sem barðist við uppreisnarmenn í austurhluta Úkraínu, væri saknað eftir fyrirsát.

„Símasambandið við hann rofnaði,“ segir hin 33 ára Chub. Hún býr í Mariupol; stórborg undir stjórn Kiev sem liggur nærri átakasvæðinu.

Chub komst að því að eiginmanns hennar væri saknað þegar hún setti sig í samband við neyðarlínu fyrir ættingja hermanna.

Næsta ár var sársaukafullt; leit lögreglu og annarra yfirvalda bar engan árangur og í örvæntingu sinni leitaði hún meira að segja til spákonu. Hún reyndi allt til að afla upplýsinga um afdrif Sergiy.

„Ég var reiðubúin til að greiða óáreiðanlegum einstaklingum peninga,“ segir Chub og sýnir blaðamanni mynd af eiginmanninum sem hann sendi henni frá vígstöðvunum.

„Einhver sagði mér að honum væri haldið í Rússlandi. Og ég vildi trúa því.“

Gleðin vegna óléttunnar vék fyrir sorg og örvæntingu.
Gleðin vegna óléttunnar vék fyrir sorg og örvæntingu. AFP

En ári eftir að Sergiy hvarf aðstoðuðu félagar hans úr sjálfboðaliðasveitinni Donbas að finna það sem þeir sögðu líkamsleifar hans, auk beina úr fjölda annarra fallinna hermanna.

Leifarnar fundust nærri Ilovaisk, bæ í suðausturhluta Úkraínu skammt frá landamærunum að Rússlandi. Þar áttu sér stað blóðugustu bardagar hinna 38 mánaða átaka. Um 400 úkraínskir hermenn eru taldir hafa fallið þar og fleiri en 150 er enn saknað.

„Milli himins og jarðar“

Þrátt fyrir að nokkrir hermenn hafi sagst séð Sergiy falla í sprengjuárás og að ætlaðar líkamsleifar hans hafi verið jarðsettar, er opinber staða hans óbreytt; hans er saknað.

„Erfðaprófanirnar standa enn yfir og á meðan dvelur eiginmaður minn milli himins og jarðar,“ segir Chub. 

Fleiri en 10.000 hafa látist og nærri 24.000 særst síðan uppreisnarmenn hliðhollir Rússum hófu átök í apríl 2014. Tölurnar ná ekki til þeirra sem er saknað, samkvæmt Rauða krossinum.

„Fleiri en 600 mál sem hafa verið skráð hjá Rauða krossinum eru enn óleyst,“ sagði Raphael Tenaud, yfirmaður skrifstofu samtakanna í Mariupol, í samtali við AFP.

Valeriy Kraynikov leitar enn sonar síns, Oleksandr.
Valeriy Kraynikov leitar enn sonar síns, Oleksandr. AFP

Valeriy Kraynikov, sem býr skammt frá átakasvæðinu líkt og Chub, veit af eigin reynslu hvað býr að baki tölunum.

Sonur hans, Oleksandr 45 ára, yfirgaf heimabæ sinn Horlivka, iðnaðarsvæði sem stendur í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Donetsk, „höfuðborg“ uppreisnarmannanna, skömmu eftir að átökin brutust út þar sem hann var ósáttur við stefnu nýrra yfirvalda.

Í júní 2014 snéri hann aftur heim í einn dag til að heimsækja 67 ára föður sinn en hefur ekki sést síðan.

Vitni tjáðu Valeriy að sonur hans hefði verið handsamaður af vopnuðum mönnum Igor Bezler, eins af alræmdum leiðtogum uppreisnarmanna.

„Líklega var hann handtekinn bara vegna þess að hann tjáði afstöðu sína til yfirvalda,“ segir hinn bláeygði Kraynikov í samtali við AFP í eldhúsinu í íbúð sinni.

Hann biðlaði til uppreisnarmannanna auk stjórnvalda í Kíev og alþjóðlegra samtaka en enginn gat sagt honum hvar sonur hans væri niður kominn. Þess í stað var honum hótað og tjáð að honum væri hollast að „hætta að tala of mikið eða yfirgefa borgina.“

Oleksandr er 45 ára, ef hann er enn á lífi.
Oleksandr er 45 ára, ef hann er enn á lífi. AFP

Hann gaf sig hins vegar ekki.

Hann hefur gengið alla kirkjugarða í nágrenninu en engar upplýsingar fundið um son sinn. Hann vonast enn til að hitta Oleksandr á lífi.

Að sögn Tenaud ganga leitir að fólki erfiðlega fyrir sig í vopnuðum átökum.

„Við verðum að vera undir það búin að leitir af því tagi taki mörg ár.“

mbl.is