Leggja ekki meira fé til Evrópuráðsins

Sergei Lavrov segir að Rússar muni ekki leggja meira fjármagn …
Sergei Lavrov segir að Rússar muni ekki leggja meira fjármagn til Evrópuráðsins nema þeir endurheimti atkvæðarétt sinn. AFP

Rússar hafa tilkynnt að þeir hyggist ekki leggja Evrópuráðinu til meira fjármagn árið 2017, vegna deilna í kjölfar innlimunar Krímskaga. Rússar eru enn reiðir þeirri ákvörðun þings ráðsins að svipta fulltrúa Rússlands atkvæðarétti í kjölfar innlimunarinnar.

Fjörtíu og sjö ríki eiga aðild að Evrópuráðinu en fjárhagsframlag Rússa árið 2017 átti að nema 33 milljónum evra. Vyacheslav Volodin, forseti rússneska þingsins, sagði fyrr í mánuðinum að stjórnvöld ættu enn eftir að reiða af hendi 11 milljónir evra en ekki myndi koma til þess.

Samkvæmt upplýsingum frá rússneska utanríkisráðuneytinu tjáði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, Thorbjorn Jagland, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, að Rússar hygðust ekki leggja meira fjármagn til ráðsins nema atkvæðaréttur þeirra yrði endurvakinn.

Þá sagði í yfirlýsingu að umrædd ákvörðun þingsins frá 2014 hefði snúist um að „refsa“ Rússlandi fyrir sjálfstæða ákvörðun íbúa Krímskaga, sem hefðu lýst vilja til að tilheyra Rússlandi frekar en Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert