Flóttamannabúðum lokað í kjölfar árásar

Almennir borgara hafa ekki farið varhluta af grimmd vígamanna Ríkis …
Almennir borgara hafa ekki farið varhluta af grimmd vígamanna Ríkis íslam, sem veigra sér ekki við að beita sjálfsvígsárásum gegn konum og börnum. AFP

Fjórtán létust þegar sjálfsvígsárásarmaður lét til skarar skríða í flóttamannabúðum vestur af Ramadi í héraðinu Anbar í Írak í dag. Flestir hinna látnu voru konur og börn en þrettán til viðbótar særðust.

Adnan Fayhan, leiðtogi á Al-Wafaa-svæðinu þar sem 60 Kilo-búðirnar eru, sagði að þeim yrði lokað í kjölfar árásarinnar. Allt fólkið yrði flutt í 18 Kilo-búðirnar skammt frá, þar sem öryggi væri meira og meiri aðstoð að fá.

Enginn hefur lýst árásinni á hendur sér en vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams eru þekktir fyrir sjálfsvígsárásir gegn almennum borgurum í Írak.

Íraskar sveitir hafa frelsað borgirnar Ramadi og Fallujah úr klóm samtakanna en þau hafa enn ítök í vesturhluta Anbar og öryggi þar er afar ótryggt.

Ríki íslams réð yfir stórum svæðum norður og vestur af Bagdad árið 2014 en íraskar hersveitir, studdar loftárásum bandamanna, hafa endurheimt umtalsvert landsvæði síðan.

Bardagar um Mósúl standa nú sem hæst en íraski herinn gerir ráð fyrir að ná borginni á sitt vald innan tíðar. Enn verður þó eftir að flæma vígamenn á brott á öðrum vígstöðvum en óttast er að öryggisástandið í landinu muni versna nokkuð þegar hryðjuverkasamtökin tapa höfuðvígjum sínum og fara að grípa til tilviljunarkenndra tækifærisárása.

Íraski herinn er við það að ná Mósúl á sitt …
Íraski herinn er við það að ná Mósúl á sitt vald en eyðileggingin sem blasir við er ótrúleg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert