Japanskir menn finna ástina í silíkoni

Ozaki á þrjár dúkkur en Mayu er hin eina sanna. …
Ozaki á þrjár dúkkur en Mayu er hin eina sanna. Hann segist vilja taka hana með sér til himna þegar hann deyr og deila með henni eilífðinni. AFP

Þegar logarnir kulnuðu í hjónbandi Masayuki Ozaki fór hann ótroðnar slóðir við að fylla upp í hið rómantíska tómarúm; hann fjárfesti í kynlífsdúkku úr sílíkoni sem hann fullyrðir að sé ástin í lífi hans. Dúkkan, sem ber nafnið Mayu, deilir rúmi Ozaki undir sama þaki og eiginkona hans og dóttir.

Fyrirkomulagið vakti hatrammar deilur á heimilinu þar til hjónin sömdu óstöðugan frið.

„Eftir að eiginkona mín fæddi dóttur okkar hættum við að stunda kynlíf og ég upplifði sára einmannakennd,“ segir hinn 45 ára sjúkraþjálfari. „En um leið og ég sá Mayu í sýningarsalnum þá var það ást við fyrstu sýn.“

Ozaki roðnar þegar hann talar um „kærustu“ sína, sem hann tekur á stefnumót í hjólastól og skreytir með hárkollum, kynæsandi fatnaði og skartgripum.

„Eiginkona mín varð bálreið þegar ég kom fyrst heim með Mayu. Þessa dagana lætur hún sig hafa það, þótt henni sé það þvert um geð,“ segir Ozaki.

„Þegar dóttir mín áttaði sig á því að hún væri ekki risastór Barbie-dúkka fríkaði hún út og sagði að þetta væri ógeðslegt en núna er hún nógu gömul til að fá fötin hennar Mayu lánuð.“

Samband Ozaki og Mayu hefur valdið miklu ósætti í hjónabandinu. …
Samband Ozaki og Mayu hefur valdið miklu ósætti í hjónabandinu. Eiginkonan sættir sig við ástandið en er ekki ánægð með „kærustuna“. AFP

Ozaki er einn af stækkandi hóp japanskra manna sem leita í gúmmíið í landi þar sem rómantíkin er á undanhaldi. Hann viðurkennir að vera lítið spenntur fyrir mannlegum samskiptum.

„Japanskar konur eru kaldlyndar,“ segir hann á göngu við ströndina með ástinni sinni. „Þær eru afar sjálfselskar. Menn vilja hafa einhvern sem hlustar á þá án þess að röfla þegar þeir koma heim úr vinnunni.“

Hann segir Mayu alltaf til staðar; hann elskar hana í ræmur og vill deila eilífðinni með henni.

„Ég get ekki ímyndað mér að snúa mér aftur að manneskju af holdi og blóði. Ég vill vera grafinn með henni og taka hana með mér til himnaríkis.“

Hægt að skipta út hausnum og kynfærunum

Á hverju ári seljast um 2.000 manneskju-legar dúkkur í Japan. Þær kosta allt frá 600.000 krónum og upp úr. Liðamót þeirra eru beygjanleg og þá er hægt að skipta út höfðinu á þeim og kynfærum.

„Tæknin hefur þróast mikið frá því að þessar ógeðslegu uppblásanlegu dúkkur voru og hétu á 7. áratugnum,“ segir Hideo Tsuchiya, framkvæmdastjóri dúkkuframleiðandans Orient Industry.

„Þær eru ótrúlega raunverulegar og það er engu líkara en þú sért að snerta raunverulega húð. Sí fleiri menn kaupa þær af því að þeim finnst þeir raunverulega getað átt samskipti við dúkkurnar,“ segir hann.

Saori er ástin í lífi Nakajima, sem segist ekki sjá …
Saori er ástin í lífi Nakajima, sem segist ekki sjá fyrir sér að sættast við eiginkonuna á kostnað þess að missa Saori úr lífi sínu. AFP

Dúkkurnar eru vinsælar meðal fatlaðra og ekkla, auk þess að vera í uppáhaldi hjá þeim sem hafa blæti fyrir gínum, en aðrir leita í dúkkurnar til að komast hjá hjartasorg.

„Manneskjur eru svo kröfuharðar,“ segir hinn 62 ára Senji Nakajima, á meðan hann baðar silíkonástkonu sína Saori. Á veggjum heimilis hans hanga myndir af Saori og hún fer með honum á skíði og brimbretti.

„Fólk vill alltaf eitthvað frá þér; peninga eða skuldbindingu,“ kvartar hann. „Hjarta mitt tekur kipp þegar ég kem heim til Saori,“ bætir hinn tveggja barna eiginmaður við. „Hún svíkur mig aldrei; hún lætur áhyggjur mínar hverfa út í veður og vind.“

Samband Nakajima við Saori hefur myndað gjá í fjölskyldu hans en hann neitar að gefa hana upp á bátinn. „Sonur minn sættir sig við þetta en dóttir mín ekki,“ segir hann.

Eiginkonan hefur bannað Nakajima að koma heim með dúkkuna.

„Ég mun aldrei aftur fara á stefnumót með raunverulegri konu; þær eru hjartalausar,“ staðhæfir Nakajima þar sem hann situr í þröngri íbúð sinni í Tókíó. Í íbúðinni er að finna tvær „fyrrverandi“ silíkon-unnustur og einn höfuðlausan búk.

Nakajima viðurkennir að það sé ólíklegt að sættir náist með honum og eiginkonu hans.

„Ég myndi ekki getað baðað mig með Saori eða kelað með henni og horft á sjónvarpið,“ segir hann á meðan hann færir dúkkuna í fjólubláan nærfatnað. „Ég vil ekki eyðileggja það sem ég á með henni.“

Nakajima fer með Saori eins og manneskju af holdi og …
Nakajima fer með Saori eins og manneskju af holdi og blóði, og tekur hana með sér í lautarferðir, á skíði og brimbretti, svo eitthvað sé nefnt. AFP

„Fyrir mér er hún mannleg“

Koddahjalið er sannarlega einhliða en Nakajima telur sig hafa fundið sanna ást. „Ég myndi aldrei halda fram hjá henni, ekki einu sinni með vændiskonu, því fyrir mér er hún mannleg,“ segir hann.

Fæðingartíðnin hefur hrapað í Japan og sífellt fleiri menn, kallaðir „grasætur“, hafa snúið baki við ástinni og hefðbundnum karlmannlegum gildum. Þeir leitast heldur við því að eiga friðsælt, kapplaust líf.

„Ég held að í framtíðinni muni fleiri og fleiri menn velja að eiga samband við dúkkur,“ segir Yoshitaka Hyodo. Heimili hans er eins og Aladdín-hellir þar sem úir og grúir af dúkkum, drasl-list og japanskri erótík.

„Þeim fylgir minna stress og þær kvarta miklu minna en konur,“ bætir hann við.

Hyodo, sem er mikill áhugamaður um hermennsku, býr einn en á skilningsríka kærustu. Dúkkurnar hans telja tíu og stundum klæðir hann þær í hermannabúninga til að uppfylla stríðstengdar fantasíur.

Yoshitaka Hyodo klæðir dúkkurnar sínar stundum upp og gerir þær …
Yoshitaka Hyodo klæðir dúkkurnar sínar stundum upp og gerir þær að þátttakendum í fantasíum sínum. AFP

Hann segist hins vegar hafa dregið úr kynlífi með dúkkunum.

„Núna snýst þetta meira um að tengja tilfinningalega,“ segir hinn 43 ára bloggari, hvers áhugi kviknaði þegar hann rakst á brenndar dúkkuleifar á götunni.

„Fólki kann að finnast ég skrýtinn en þetta er ekkert frábrugðið því að safna sportbílum. Ég veit ekki hversu miklu ég hef eytt en þetta er ódýrara en Lamborghini,“ segir Hyodo.

Vísindamenn vinna nú að því að þróa næstu kynslóð kynlífsdúkka, sem munu mögulega getað talað, hlegið og jafnvel hermt eftir fullnægingu.

Langþjáð eiginkona Ozaki þarf hins vegar þegar að hafa sig alla við í að hundsa gúmmí-tálkvendið sem situr á rúmi eiginmannsins.

„Ég sinni bara heimilisstörfunum,“ segir hún snöktandi. „Ég elda matinn, ég þríf, ég sé um þvottinn. Ég vel svefn fram yfir kynlíf.“

Hyodo segir dúkkurnar „kvarta mun minna“ en venjulegar konur.
Hyodo segir dúkkurnar „kvarta mun minna“ en venjulegar konur. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert