Ömurlegar aðstæður milljóna barna á vergangi

Hvað er hægt að taka til bragðs þegar stríð geisar, ...
Hvað er hægt að taka til bragðs þegar stríð geisar, uppskerubrestur verður og innviðir samfélagsins eru ónýtir? Þá er lagt á flótta. Kona ásamt tveimur börnum sínum gengur um svæði sem flóttamenn í Suður-Súdan halda til á. AFP

Meira en sjö milljónir barna eru á vergangi í vestur- og miðhluta Afríku. Flest eru þau á flótta undan ofbeldi, fátækt og loftslagsbreytingum. Þau hafa þess ekki kost að yfirgefa hamfara- og ólgusvæði fyrir fullt og allt og leita betra lífs í Evrópu. Þau þurfa því að halda til í löndunum sunnan Sahara og lifa við það óvissuástand sem þar ríkir.

Í skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, sem kom út í dag, er rýnt í stöðu þessara barna. Þar kemur m.a. fram að börn séu í meirihluta þeirra tólf milljóna manna sem eru á vergangi í vestur- og miðhluta Afríku. Um 75% þeirra eru á flækingi í löndum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar og aðeins eitt af hverjum fimm mun reyna að flýja til Evrópu.

Skýrsla UNICEF heitir Í leit að tækifærum: Raddir barna á vergangi í Vestur- og Mið-Afríku. Í henni er ljósi varpað á helstu þætti sem verða til þess að börn flýja heimili sín og lenda á vergangi. Þá er einnig skoðað hvaða langtímaáhrif slíkur fólksflótti og -flutningar hafa á samfélögin. Ljóst þykir að vandamálið fer vaxandi.

 „Aldrei fyrr hafa börn í Vestur- og Mið-Afríku verið meira á ferðinni í leit að öryggi og betra lífi,“ segir Marie-Pierre Poirier, svæðisstjóri UNICEF. „Flest eru börnin á flótta innan Afríku, þau fara ekki til Evrópu eða eitthvað annað. Við verðum að útvíkka umræðuna um fólksflutninga og átta okkur á viðkvæmri stöðu allra barna sem eru á vergangi. Við þurfum að bæta stuðningskerfi okkar til að vernda þau, á öllum þeim stöðum sem þau eru á.“

Fólk á ferð um eyðimerkur Tjad. Milljónir manna í Afríku ...
Fólk á ferð um eyðimerkur Tjad. Milljónir manna í Afríku eru á vergangi vegna loftslagsbreytinga, átaka og fátæktar. Ljósmynd/UNICEF

Skýrslan er byggð á viðtölum við flóttabörn og fjölskyldur þeirra í nokkrum löndum. Hún leiðir í ljós að flókin og samverkandi áhrif verða til þess að fólkið leggur á flótta. Fátækt á þar hlut að máli en er þó ekki ein og sér helsta skýringin. Hröð fólksfjölgun, aukin borgvæðing, langvinn átök, veikt stjórnskipulag og innviðir verða til þess að fólk sér ekkert annað fært en að yfirgefa heimili sín og leita betra lífs annars staðar. 

Loftslagsbreytingar ýta fólki af stað

Þá eru loftslagsbreytingar einnig stór þáttur í fólksflótta á þessu landsvæði. Á þessari öld er talið að hitastig Vestur- og Mið-Afríku muni hækka að meðaltali um 3-4 gráður sem er um helmingi meira en spáð er að sé í uppsiglingu annars staðar í heiminum. Mikil flóð og alvarlegir þurrkar hafa þegar orðið til þess að fólk hefur misst lífsviðurværi sitt og orðið að leita annarra leiða til að sjá sér og sínum farborða. Aðstæður til landbúnaðar eru orðnar mjög sveiflukenndar og oft áhættusamar. 

Beitiland fyrir nautgripi er til að mynda orðið af skornum skammti og slegist er um bestu svæðin. Allt hefur þetta orðið til þess að sífellt fleiri flytja úr sveitunum til borganna. 

Þá er það niðurstaða skýrsluhöfunda að flóttafólk, og þá ekki síst börn, njóti ekki nægilegrar verndar og stuðnings, hvort sem er innan síns heimalands eða í nágrannaríkjunum. Þar sem fólki á flótta er að fjölga mun þetta skapa enn meira vandamál í nánustu framtíð ef ekkert verður að gert. 

Í skýrslunni er lagt til að stjórnvöld, samtök og stofnanir setji velferð barna á flótta í forgang. Nauðsynlegt er að hlúa að barninu í heimalandinu, á því svæði sem það fer um á flóttanum og loks á áfangastað þess. Tryggja þurfi að börnin fái aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun og annarri nauðsynlegri grunnþjónustu, hvaðan sem þau eru að koma og hvert sem þau eru að fara. 

UNICEF krefst þess að hætt verði að hneppa í varðhald ...
UNICEF krefst þess að hætt verði að hneppa í varðhald þau börn sem sækja um stöðu flóttamanns eða eru á faraldsfæti. Ljósmynd/UNICEF

Sex aðgerðir sem UNICEF hvetur til

UNICEF hvetur áfram stjórnvöld í Vestur- og Mið-Afríku sem og í Evrópu og víðar, til að grípa tafarlaust til aðgerða og hafa eftirfarandi að leiðarljósi í sinni vinnu:

- Verja börn á flótta og faraldsfæti, sérstaklega fylgdarlaus börn, gegn ofbeldi og misneytingu.

- Hætta að hneppa í varðhald þau börn sem sækja um stöðu flóttamanns eða eru á faraldsfæti.

- Halda fjölskyldum saman en það er sterkasta vopnið til að tryggja öryggi barna, veita þarf svo fjölskyldunum lagalega stöðu.

- Halda öllum börnum á flótta og faraldsfæti í námi, og veita þeim heilbrigðisþjónustu sem og aðra grunnþjónustu.

- Þrýsta á aðgerðir til að takast á við undirliggjandi orsakir hinnar stórfelldu aukningar flóttamanna og fólks á faraldsfæti í heiminum.

- Vinna gegn útlendingahatri, mismunun og jaðarsetningu minnihlutahópa. 

Heimsforeldrar hjálpa til við allar þessar aðgerðir.

UNICEF hvetur enn fremur almenning til að láta sig málið varða og sýna börnum á flótta samstöðu og stuðning. Þetta átaksverkefni kallast #AChildIsAChild og hafa hundruð þúsunda manna tekið þátt í því á samfélagsmiðlum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Hljómsveit A Kröyer
Hljómsveit A. KRÖYER Duett, trío, fyrir dansleiki, árshátíðir, þorrablót, einkas...
Byggingastjórn - Húsasmíðameistari
Löggiltur byggingarstjóri og húsasmíðameistari Tek að mér: - byggingarstjór...
Til sölu Musso Sport pallbíll árg.2004
Tilboð óskast í bílinn - gangfær en óskoðaður. Upplýsingar: 5531049 Ólafur Heið...
Bækur um ættfræði, byggðasögu og ýmsan fróðleik til sölu
Til sölu nokkur grundavallarrit ættfræðinnar ásamt ritum um atvinnu- og byggðasö...