Telja fleiri tengjast Manchester-árásinni

Salman Abedi var 22 ára. Eldri bróðir hans er nú …
Salman Abedi var 22 ára. Eldri bróðir hans er nú í haldi lögreglu í Trípólí í Líbýu.

Breska lögreglan telur að fleiri en Salman Abedi beri ábyrgð á sprengjuárásinni í Manchester Arena-tónleikahöllinni í maí. Abedi varð 22 manns að bana og særði tugi er hann sprengdi sig í loft upp í lok tónleika bandarísku söngkonunnar Ariönu Grande.

Fréttastofa Sky News hefur í dag eftir lögreglu að hún telji fleiri bera ábyrgð á árásinni. „Við teljum að fleiri hafi mögulega átt þátt að máli,“ sagði Russ Jacskon, yfirmaður hryðjuverkadeildar lögreglunnar í Norðvestur-Englandi. „Við teljum þetta ekki vera stórt net, en við teljum að það kunni fleiri að verða handteknir á næstunni.“

Hashem Abedi, bróðir Salmans, var handtekinn í Trípólí í Líbýu eftir árásina og lögregla í Manchester á nú í viðræðum við líbýsk yfirvöld ásamt ríkissaksóknara Bretlands til að fá leyfi til að yfirheyra hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert