Tugþúsundir mótmæla Erdogan

Tugþúsundir söfnuðust saman í borginni Istanbúl í Tyrklandi til að mótmæla ríkisstjórn Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands. Þetta var lokahnykkur á svokallaðri réttlætisgöngu sem hófst í júní, en gengnir voru 450 km til borgarinnar. 

Fram kemur á vef BBC, að gangan hafi hafist í Ankara, höfuðborg landsins, 15. júní. Margir hafa bæst í hópinn frá því hún hófst.

Fólkið mótmælir fjöldauppsögnum og fangelsunum sem fylgdu í kjölfar misheppnaðrar valdaránstilraunar í fyrra. Erdogan sakar þá sem standa að göngunni um að styðja hryðjuverkastarfsemi. 

Hann segir að stjórnarandstöðuflokkurinn CHP, sem skipulagði gönguna, hafi gengið skrefinu lengra en einfaldlega að sýna fram á pólitíska andstöðu. Flokkurinn væri að vinna með hryðjuverkahópum og öflum sem hvetja hópana til að berjast gegn ríkinu. 

Þetta er fjölmennasti mótmælafundur gegn Erdogan frá mótmælunum í Gezi-garðinum fyrir fjórum árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert