Mætti miklum kynþáttafordómum

Han Hyun-Min hefur mátt þola kynþáttahatur alla sína ævi.
Han Hyun-Min hefur mátt þola kynþáttahatur alla sína ævi. AFP

Langir leggir og ákveðið fas fyrirsætunnar Hans Hyun-Mins hafa gert hann afar eftirsóttan innan tískuheims Suður-Kóreu en það hefur sömuleiðis ræst sem umboðsmaður hans óttaðist; í hinu einsleita samfélagi hefur hann einnig mætt fordómum. Hví? Jú, faðir hans er svartur Nígeríumaður.

Han, sem er aðeins 16 ára, hefur mátt þola fordóma vegna hörundslitar síns en kynþáttamismunun er útbreidd í Suður-Kóreu og börn sem eiga svart foreldri gjarnan kölluð niðrandi orði sem þýða má sem „blendingur“.

„Dökkleitar fyrirsætur á borð við Han þekktust ekki í Suður-Kóreu þannig að það var mikil áhætta að ráða hann,“ segir umboðsmaðurinn Youn Bum.

Í dag situr Han hins vegar fyrir hjá fjölda glanstímarita sem fyrsta svarta fyrirsæta landsins.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa löngum freistað þess að hlúa að ímyndinni um nútímalega, siðfágaða og tæknivædda þjóð. En undir yfirborðinu kraumar djúpstætt kynþáttahatur, á sama tíma og innflytjendum fjölgar.

Enn telja þeir þó ekki nema 4% íbúa.

Flestir erlendra ríkisborgara í landinu eru frá Kína og Suðaustur-Asíu; farandverkamenn eða konur sem giftast mönnum á strjálbýlum svæðum sem eiga erfitt með að finna sér konur í heimabyggðinni.

Mæður sögðu börnum sínum að leika sér ekki við önnur ...
Mæður sögðu börnum sínum að leika sér ekki við önnur börn eins og Han. AFP

Mismunun gegn útlendingum er algeng. Heimamenn gera grín að þeim í almenningssamgöngum og kalla þá „skítuga“ eða „illa lyktandi“. Þá er þeim neitað um þjónustu á fínum veitingahúsum og aðgang að almenningssalernum.

Samkvæmt opinberri könnun frá 2015 vilja 25% íbúa Suður-Kóreu ekki eiga útlending fyrir nágranna. Hlutfallið er 10,5% í Kína og 5,6% í Bandaríkjunum.

Þá er börnum sem eiga svart foreldri strítt í skóla og þau kölluð tuigi en um er að ræða niðrandi orð sem notað er um kynblönduð dýr. Margir kvarta yfir því að fá ekki tækifæri, hvort sem er félagslega, í atvinnu- eða makaleit.

Han var engin undantekning.

„Ekki leika við barn eins og hann“

„Þegar ég lék mér við önnur börn í skólanum drógu sumar mæðurnar þau í burtu og sögðu eitthvað á borð við: Ekki leika við barn eins og hann,“ segir Han í samtali við AFP.

Hann mátti reglulega þola að starað væri á hann á götu og var eitt sinn spurður af eldri konu: Hvað ert þú að gera í annarra manna landi?

„Mig langaði að verða ósýnilegur,“ segir Han. „Ég hataði að líta öðruvísi út en allir aðrir.“

Tískuheimurinn hefur tekið Han fagnandi en það tók tíma. Til ...
Tískuheimurinn hefur tekið Han fagnandi en það tók tíma. Til að byrja með var honum hafnað víða. AFP

Han fann ástríðu sína í tískuheiminum, fór í prufur og birti myndirnar sínar á samfélagsmiðlum þar til hann vakti athygli Youns. Umboðsmaðurinn gerði umsvifalaust við hann samning eftir að hafa séð hann rigsa um götur Seúl.

„Að verða fyrirsæta jók sjálfsöryggi mitt verulega,“ segir Han. „Nú nýt ég þess þegar aðrir horfa á mig í staðinn fyrir að skammast mín eða verða vandræðalegur.“

Han vonast til að verða fyrirmynd „blandaðra“ barna. „Ég vil ná meiri frama, ekki bara fyrir mig heldur líka þá sem ég stend fyrir.“

Sagður boða ólukku

Han og umboðsmaður hans komu fyrst að lokuðum dyrum hjá fatahönnuðum og ritstjórum tímarita. Sumir sögðu hinn dökkleita Han boða „ólukku“ og hvöttu Youn til að ráða heldur hvítar fyrirsætur.

„Sumir þeirra sögðu við mig: Við viljum ekki dökkleitar fyrirsætur. Eða: Fyrir okkur þýðir ekki-kóreskur hvít fyrirsæta með blá augu og ljóst hár,“ segir umboðsmaðurinn.

25% Suður-Kóreumann vilja ekki útlendinga fyrir nágranna.
25% Suður-Kóreumann vilja ekki útlendinga fyrir nágranna. AFP

Nokkrum fatahönnuðum þótti Han hins vegar hafa einstakt útlit og persónutöfra. Að lokum fór það svo að hann tók þátt í meira en 30 tískusýningum á tveimur tískuvikum Seúl; óvenju mörgum fyrir byrjanda.

Hönnuðurinn Cho Young-Jae segir vaxtarlag Hans búa yfir styrkleikum bæði asískra fyrirsæta og fyrirsæta frá Vesturlöndum. Cho valdi fyrirsætuna til að sýna herralínuna Chaos From Undermind.

Að sögn Chos er japanskt samfélag álíka einsleitt og það í Suður-Kóreu en í Japan sé saga aðflutnings fólks lengri og „blandaðar“ fyrirsætur fleiri.

Þrátt fyrir þetta sætti Ariana Miyamoto, sem var valinn Miss Universe Japan árið 2015, mikilli gagnrýni fyrir að vera ekki nægilega japönsk til að vera fulltrúi landsins. Faðir Miyamoto er svartur. 

Peningar og völd

Íbúum Suður-Kóreu var löngum kennt í skóla að vera stoltir af einsleitni landsins, þar sem einn kynþáttur og eitt tungumál höfðu varað gegnum aldirnar.

Margir sérfræðingar segja að ítrekaðar innrásir af hálfu Kína og Japans hafi hvatt til „fórnarlambstilfinningar“ hjá þjóðinni og hömlulausrar þjóðernishyggju. 

Han á framtíðina fyrir sér.
Han á framtíðina fyrir sér. AFP

Þessu til viðbótar segir Choi Hang-Sub, prófessor í félagsvísindum við Kookmin University í Seúl, að samkeppniskúltúr landsins hafi leitt til „tilbeiðslu þeirra sem eiga peninga og hafa völd en fyrirlitningar í garð þeirra sem eru án þess“.

„Reglan á einnig við um útlendinga,“ sagði prófessorinn við AFP. „Þannig er hvítu fólki frá þróuðum ríkjum tekið opnum örmum en litið niður á þá sem þykja koma frá minna þróuðum löndum.“

Þeim útlendingum hefur fjölgað sem komast í sviðsljósið í Suður-Kóreu en næstum allir eru hvítir. Útlit þeirra þykir eftirsóknarvert og „fallegt“.

Á samfélagsmiðlum hafa menn hins vegar tekið Han í sátt.

„Hann hefur svo góða áru,“ segir einn. „Ég vona að samfélag okkar verði opnara gagnvart fólki eins og honum.“

mbl.is
Bækur - Örlygur Sigurðsson
Til sölu nokkrar af bókum Örlygs Sigurðssonar, upp. í síma 8920213...
FJÖLNOTAKERRUR _ STURTUKERRUR
Fjölnotakerrur, auðvelt er að koma bílum og vélum uppá, 4 til 6 metra langar. St...
Chesterfield sófi.
Til sölu þessi gullfallegi Chesterfield leðursófi. Til sýnis í versluninni Notað...
LJÓSMYNDANÁMSKEIÐ 20. OG 22. FEB.
2ja DAGA LJÓSMYNDANÁMSKEIÐ 20. OG 22. FEB. 2ja daga byrjenda ljósmyndanámsk...
 
Aðalskipulag
Tilkynningar
Breyting á Aðalskipulagi Dala...
Uppboð
Tilkynningar
UPPBOÐ Boðnir verða up...
Eldri borgarar
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, for...
Framhald
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...