Leyfa loks leikfimi fyrir stúlkur í skólum

Hin sádiarabíska Wojdan Shaherkani keppti í júdó á Ólympíuleikunum í …
Hin sádiarabíska Wojdan Shaherkani keppti í júdó á Ólympíuleikunum í Lundúnum 2012. Fékk hún leyfi til að bera sérstaka hettu sem huldi hár hennar. AFP

Menntamálaráðuneytið í Sádi-Arabíu hefur gefið út að leikfimikennsla stúlkna muni hefjast í skólum á næsta skólaári. Mannréttindasamtök fagna þessari ákvörðun sem þau segja löngu tímabæra.

„Þessar löngu tímabæru umbætur skipta sannarlega sköpum fyrir stúlkur í Sádi-Arabíu. Þeim hefur lengi verið neitað um þau grundvallarmannréttindi að stuðla að eigin heilbrigði og heilsu í gegnum hreyfingu og líkamsrækt,“ segir Minky Worden frá samtökunum Human Rights Watch við AFP.

Konur í Sádi-Arabíu búa við gríðarleg höft í daglegu lífi en hvergi annarstaðar er konum bannað að keyra bíl. Ennfremur er hið svokallaða umsjónarkerfi við lýði í landinu þar sem karlkyns fjölskyldumeðlimur, oftast faðir, eiginmaður eða bróðir, þarf að gefa konum leyfi til  þess að stunda nám, ferðast og fleiri athafna sem jafnan teljast sjálfsögð mannréttindi.

Konum er meinaður aðgangur að íþróttaleikvöngum í Sádi-Arabíu í skjóli strangra reglna um aðskilnað kynjanna á almannafæri. Fjórar konur tóku þátt í Ólympíuleikunum 2016 fyrir hönd Sádi-Arabíu en þær voru aðeins tvær árið 2012. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert