Minnstu vinsældir Bandaríkjaforseta í 70 ár

Feðgarnir Donald Trump Bandaríkjaforseti og Donald Trump yngri. Forsetinn segist …
Feðgarnir Donald Trump Bandaríkjaforseti og Donald Trump yngri. Forsetinn segist fyrst hafa frétt af fundi sonarins með rússneska lögfræðinginum fyrir nokkrum dögum. AFP

Vinsældir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa hrunið samkvæmt nýrri skoðanakönnun Washington Post og fréttastofu ABC sjónvarpsstöðvarinnar. Í frétt á vef Guardian segir að vinsældir Bandaríkjaforseta eftir fyrstu sex mánuðina í embætti hafi ekki mælst minni í 70 ár. 

Greint var frá því á laugardag að forsetaframboð Trumps hefði gengið frá greiðslum til lögfræðifyrirtækis, sem fer með mál sonar forsetans, Donalds Trumps yngri, næstum  -tveimur vikum áður en upplýst var um fund Trumps yngri og rússnesks lögfræðings, sem á að hafa lofað honum skaðlegum upplýsingum um Hillary Clinton mótframbjóðanda Trump eldri.

Vinsældir forsetans mælast nú 36%,sem er sex prósentustigum lægri en þegar hann hafði setið 100 daga í embætti. Samkvæmt könnuninni telja 48% Bandaríkjamanna nú að staða Bandaríkjaforseta sem leiðtogi hins frjálsa heims sé nú veikari en áður en Trump tók við embætti. Þá eru aðeins 24% hlynnt hugmyndum Trump um breytingar á heilbrigðisstefnu Obama, sem gengið hefur undir nafninu Obamacare, á meðan að 50% styðja stefnu forsetans fyrrverandi.

63% telja fundinn óviðeigandi

Trump eyddi helginni á einkagolfklúbbi sínum í Bedminster í New Jersey. Hann hefur reynt að draga úr mikilvægi skoðanakönnunarinnar og nýtti í gær samfélagsmiðilinn Twitter til að lýsa því yfir að „næstum 40% væri ekki slæmt á þessum tímapunkti“. Sagði hann þá skoðanakönnun Washington Post og ABC í aðdraganda kosninganna, ennfremur hafa verið þá ónákvæmustu sem gerð var. Forsetinn fer þar með rangt mál, en könnun Washington Post og ABC fór nærri um endanleg úrslit kosninganna.

Þá töldu 63% aðspurðra í könnuninni nú, að fundur náinna samstarfsmanna forsetans, þar á meðal sonar hans og tengdasonar Jared Kushners, og hóps Rússa, m.a. lögfræðingsins Nataliu Veselnitskaya, vera óviðeigandi.

Trump sagði blaðamönnum á miðvikudag að hann hefði ekki frétt af fundinum, sem átti sér stað í Trump Tower byggingunni í New York í fyrra, fyrr en fyrir nokkrum dögum.

Jay Sekulow, lögfræðingur Trump, sagði í gær í viðtali við bandarískar sjónvarpsstöðvar, bandarísku leyniþjónustunni ámælisverða fyrir að hleypa Rússunum inn í Trump Tower bygginguna. Talsmaður leyniþjónustunnar staðfesti hins vegar í kjölfarið að forsetinn hafi ekki notið verndar leyniþjónustunnar á þeim tíma og því hafi ekki verið framkvæmd öryggisskoðun á þeim sem funduðu með honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert