Sambískur bavíani veldur rafmagnsleysi

Bavíaninn lifði rafstuðið af en hlaut alvarleg meiðsl.
Bavíaninn lifði rafstuðið af en hlaut alvarleg meiðsl. Ljósmynd/HO

Bavíani í Sambíu fiktaði við kapla orkuvers í suðurhluta landsins. Fiktið varð til þess að 50.000 manns voru án rafmagns í gærmorgun. Bavíaninn lifði af gríðarlegt rafstuð, sem hefði drepið fullorðna manneskju, samkvæmt talsmanni orkufyrirtækisins.

Fylgir það sögunni að apinn verður ekki ákærður fyrir uppátækið.

Dýraverndunarsamtök björguðu bavíananum, sem hlýtur nú aðhlynningu vegna alvarlegra sára sinna. Rafmagni hefur verið komið aftur á.

Orkuverið er staðsett í ferðamannaborginni Livingstone í Sambíu en þar er algengt að villt dýr ráfi um borgina, þar sem hún er nálægt þjóðgarði. Þessu greinir breska ríkisútvarpið BBC frá.

Á síðasta ári gerðist svipað atvik, þar sem api olli rafmagnsleysi um allt Kenýa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert