Vilja banna óviðeigandi auglýsingar

Auglýsing Protein World frá því í fyrra.
Auglýsing Protein World frá því í fyrra.

Auglýsingar sem ýta undir staðalímyndir kynjanna, svo sem myndir af konum að þrífa upp eftir fjölskyldu sína eða af körlum sem kunna ekki að vinna heimilisstörf, verða hugsanlega bannaðar með nýjum reglum sem taka gildi á næsta ári í Bretlandi.

Breska aug­lýs­inga­eft­ir­litið, Advert­is­ing Stand­ards Agency (ASA), hefur samið nýjar reglur um herta mælikvarða þegar kemur að auglýsingum sem geta hugsanlega ýtt undir skaðlegar staðalímyndir. 

Reglurnar taka gildi á næsta ári, en sérstök nefnd um auglýsingastarfsemi mun nú fara yfir reglurnar og leggja lokahönd á þær. Verða þær notaðar til að banna óviðeigandi auglýsingar.

ASA hefur í nokkur ár rannsakað hvort herða þurfi reglur um auglýsingar, og komist að því að sönnunargögn hafi sýnt fram á að skaðlegar staðalímyndir geti takmarkað val, vonir og tækifæri barna, unglinga og fullorðinna. 

Sem dæmi um slíkar auglýsingar má nefna auglýsingar Gap, KFC og Protein World, sem allar hlutu mikla gagnrýni á síðasta ári. 

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Telegraph að ekki allar staðalímyndir verði bannaðar, svo sem konur að þrífa eða menn sem eru handlagnir, en auglýsingar sem myndu til að mynda sýna konu sem hefur aðeins hið eina hlutverk að þrífa upp eftir fjölskyldu sína eða mann sem getur ekki hugsað um börnin sín eða gert heimilisverk yrðu líklega bannaðar.

Þá verða auglýsingar sem gefa í skyn að eitthvað athæfi sé óviðeigandi fyrir drengi því það frekar ætlað stúlkum, eða öfugt, líklega bannaðar.

Auglýsing Protein World, fæðubótaefnis ætluðu konum, frá því á síðasta ári sem sýndi konu sem var vel á sig komin með textanum: „Er þinn strandarlíkami tilbúinn?“ var ekki bönnuð þrátt fyrir að yfir 300 kvartanir hafi borist ASA vegna hennar. Slík auglýsing myndi þó líklega vera bönnuð með nýju reglunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert