Loftslagsstefnan framlengd til 2030

Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, sagði loftslagsbreytingar vera raunverulegan vanda sem …
Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, sagði loftslagsbreytingar vera raunverulegan vanda sem ógnaði samfélagi manna. AFP

Stjórnvöld í Kaliforníu samþykktu í gær að framlengja strangri stefnu ríkisins í loftslagsmálum fram til ársins 2030. Þykir þetta vera mikill sigur fyrir ríkisstjórann og demókratann Jerry Brown.

Stefnan hefur gengið undir heitinu „cap and trade“ og vísar til þess að með henni eigi að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um þriðjung með aðferðafræði hins frjálsa markaðar.

Tveir þriðju hlutar þingmanna ríkisins samþykktu að framlengja löggjöfina, en Brown, sem er ríkisstjóri eins fjölmennasta ríkis Bandaríkjanna, vill að Kalifornía verði leiðandi í því að fylgja eftir skilmálum Parísarsáttmálans sem Donald Trump tilkynnti í byrjun síðasta mánaðar að Bandaríkin myndu segja sig frá.

Lögðu ágreining sinn til hliðar

„Í kvöld (í gær) stóð Kalifornía fast á sínu einu sinni enn gegn þessari ógn tilveru okkar,“ skrifaði Brown á Twitter. „Repúblikanar og demókratar lögðu ágreiningsmál sín til hliðar og sameinuðust um að sýna kjark í aðgerðum sínum.“

Með lögunum eru sett takmörk á útblástur gróðurhúsalofttegunda í Kaliforníu og þeim fyrirtækjum sem menga er gert að kaupa sér leyfi fyrir hverju tonni gróðurhúsalofttegunda sem þau senda frá sér.

 „Loftslagsbreytingar eru raunverulegar. Þær eru ógn við samfélag manna,“ sagði Brown á fimmtudag er hann ræddi löggjöfina í þinginu.

„Þetta snýst ekki um einhverja bull-arfleifð,“ sagði Brown sem er 79 ára gamall. „Þetta er ekki fyrir mig, því ég verð dauður. Þetta er fyrir ykkur og það er fjandinn hafi það raunverulegt.“

Þingið samþykkti einnig að auka mælingu loftmengunar í ríkinu og hækka sektargreiðslur á þá sem menga.

mbl.is
Loka