Duterte: Bandaríkin eru ömurleg

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segist ekki vera á leið til …
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segist ekki vera á leið til Bandaríkjanna í sinni embættistíð og jafnvel ekki síðar. Hann hafi séð Bandaríkin og þau séu ömurleg. AFP

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segir Bandaríkin vera „ömurlegt“ land og að hann muni aldrei fara þangað. Duterte var með þessu að svara orðum þingmannsins James McGoverns, sem lýsti því yfir yfir hjá Tom Lantos-mannréttindanefndinni að hann myndi leggjast gegn heimsókn Dutertes, bjóði Donald Trump Bandaríkjaforseti honum í opinbera heimsókn.

Nefndin var kölluð saman til að fjalla um mannskætt fíkniefnastríð Dutertes sem hefur kostað þúsundir Filippseyinga lífið.

Mannréttindasamtök segja að í mörgum tilfellum sé um að ræða hreinar aftökur lögreglumanna, en yfirvöld á Filippseyjum hafna alfarið slíkum fullyrðingum.

„Það mun aldrei koma sú stund að ég fari til Bandaríkjanna á mínum embættistíma, eða jafnvel eftir það,“ sagði Duterte sem ekki hefur farið leynt með það að hann beri lítinn hlýhug til Bandaríkjanna.

„Hvað fær þennan mann til að halda að ég fari til Bandaríkjanna?“ hefur Reuters eftir Duterte sem þar átti við McGovern.

„Ég hef séð Bandaríkin og þau eru ömurleg [...] það væri gott fyrir Bandaríkjaþing að hefja rannsókn á þeirra eigin brotum á þeim fjölda almennra borgara sem hafa látið lífið í stríðum þeirra í Mið-Austurlöndum.“

Annars kvaðst Duterte neyðast sjálfur til að rannsaka Bandaríkin og þá muni hann byrja á syndum fortíðar.

Trump sætti harðri gagnrýni í apríl, er hann bauð Duterte í opinbera heimsókn í Hvíta húsið er þeir ræddust við í síma. Trump sagði þó ekki hvenær sú heimsókn yrði.

Talsmaður Dutertes sagði Trump hafa sagt forsetanum að hann stæði sig vel í starfi. Bandaríska dagblaði New York Times komst yfir afrit af samtali forsetanna, en þar lofar Trump Duterte fyrir „ótrúlegt starf hans gegn fíkniefnavandanum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert