Transfólk of mikil byrði fyrir herinn

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur komist að þeirri niðurstöðu að transfólk eigi ekkert erindi í bandaríska herinn, sem verður að einbeita sér að „afgerandi sigri“ og má ekki við þeirri fjárhagslegu byrði og truflun sem af transfólki myndi hljótast.

Þetta kemur fram í þremur tístum sem forsetinn sendi frá sér fyrir stundu.

Fyrr í þessum mánuði samþykkti varnarmálaráðherrann James Mattis að fresta gildistöku ákvörðunar Baracks Obama um að heimila transfólki að ganga í herinn en tíst forsetans virðast benda til þess að hann hafi ákveðið að falla alfarið frá stefnu forvera síns.

Á morgun rennur út sá frestur sem herinn hafði til að undirbúa heilbrigðisþjónustu sína fyrir herþjónustu transfólks.

Þá stendur yfir umræða í bandaríska þinginu um 700 milljarða fjárveitingu til Pentagon en repúblikanar hafa lagt fram viðauka við umrætt frumvarp sem bannar hernum að verja fjármunum í kynleiðréttingaraðgerðir og/eða tengdar hormónameðferðir.

Frétt mbl.is: Transfólk ekki í herinn á tilætluðum tíma

Hið sjálfstæða RAND Corporation áætlar að í hernum séu þegar um 2.450 transeinstaklingar, af 1,2 milljón hermönnum. Það telur að kostnaðurinn við kynleiðréttingarferli transfólks, sem herinn þyrfti að standa straum af, myndi nema 3-4 milljónum dala árlega.

Samanlagður árlegur heilbrigðiskostnaður hersins nemur 6 milljörðum dala.

Trump hét því í aðraganda forsetakosninganna í fyrra að standa vörð um ýmis réttindi hinsegin fólks og sagði m.a. að transfólk ætti að nota það salerni, kvenna eða karla, sem því þætti viðeigandi.

Hann hafði hins vegar ekki setið lengi í embætti þegar hann afturkallaði tilmæli Obama til ríkisskóla um að heimila transnemum að nota salerni að eigin vali.

Ákvörðun forsetans hefur þegar vakið hörð viðbrögð á Twitter:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert