Samkynhneigð enn ólögleg í 72 ríkjum

AFP

Sambönd tveggja karlmanna eru enn ólögleg í 72 ríkjum heims og sambönd tveggja kvenna í 45 ríkjum. Í átta löndum liggur dauðarefsing við samkynhneigð og í fjölda landa eiga samkynhneigðir yfir höfði sér fangelsisdóm vegna „samkynhneigðra gjörninga.“

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu International Lesbian, Gay, Bixexual, Trans and Intersex Association (ILGA).

Ástandið er verst í Suður- og Austur-Afríku, Mið-Austurlöndum og Suður-Asíu en einna best í Vestur-Evrópu.

Dauðarefsing vegna samkynhneigðar er enn við lýði í Íran, Súdan, Sádi Arabíu og Jemen, þar sem notast er við sjaríalög. Þá er hún einnig viðhöfð á svæðum í Sómalíu og norðurhluta Nígeríu.

Í tveimur öðrum löndum, Sýrlandi og Írak, er „dauðarefsing“ framkvæmd af öðrum en yfirvöldum, þ.a. samtökum á borð við Ríki íslams, sem hreinlega myrðir hinsegin fólk.

Samkvæmt skýrslunni á hinsegin fólk í fimm öðrum ríkjum hættu á því að verða tekið af lífi vegna kynhneigðar sinnar, þ.e. í Pakistan, Afganistan, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Katar og Máritaníu, en þótt lagabókstafurinn kveði á um slíka refsingu finnast þess ekki lengur dæmi að lögunum sé framfylgt þegar um er að ræða kynlíf milli tveggja fullorðinna einstaklinga sem fer fram bakvið luktar dyr, með samþykki beggja.

Í Egyptalandi eru sambönd samkynhneigðra lögleg, tæknilega séð, en hinsegin fólk er engu að síður tekið fyrir af yfirvöldum og áreitt af „siðferðilegum“ ástæðum.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert