Skátar biðjast afsökunar á pólitískri ræðu Trump

Trump ávarpar landsmót skáta í Bandaríkjunum. Líkt og oft áður ...
Trump ávarpar landsmót skáta í Bandaríkjunum. Líkt og oft áður beindi hann spjótum sínum að fölskum fréttamiðlum, Barack Obama og Hillary Clinton. AFP

Einn æðsti leiðtogi skátahreyfingarinnar í Bandaríkjunum baðst í dag afsökunar á pólitískum undirtón umdeildrar ræðu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á skátamóti fyrr í vikunni.

„Ég vil senda mína einlægustu afsökunarbeiðni til þeirra í skátafjölskyldunni sem voru ósáttir við þann pólitískan boðskap sem var skotið inn í skátamótið,“ segir í yfirlýsingu frá Michael Surbaugh, sem er framkvæmdastjóri drengjahreyfingar skáta í Bandaríkjunum.

„Þetta var aldrei ætlun okkar.“

Trump ávarpaði tugi þúsunda skátadrengja á landsmóti þeirra í Vestur-Virginíuríki á mánudagskvöld og flutti þar mjög svo flokksbundna ræðu sem hefur verið harðlega gagnrýnd af mörgum.

Beindi Trump spjótum sínum að „fölskum fréttamiðlum“, Barack Obama, Hillary Clinton og ýmsum öðrum sem hann gagnrýnir reglulega.

Daginn eftir rigndi athugasemdum inn á Facebook-síðu skátahreyfingarinnar frá fólki sem gagnrýndi framkomu forsetans.

Surbaugh, sagði í yfirlýsingu sinni, hefð fyrir því að bjóða forsetanum á landsmót skáta. „Þetta er á engan hátt stuðningur við einstakling, flokk eða stefnu,“ sagði hann. „Árum saman hefur fólk hvatt okkur til að taka afstöðu varðandi pólitísk málefni og við höfum staðið föst á því að vera ekki flokksbundin og neitað að tjá okkur um slíkt.

Við iðrumst þess innilega að stjórnmál hafi verið felld inn í skátadagskrána.“

mbl.is

Bloggað um fréttina