Reka 755 sendiráðsstarfsmenn úr landi

Vladimír Pútin Rússlandsforseti og Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands. Pútín segist …
Vladimír Pútin Rússlandsforseti og Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands. Pútín segist íhuga að grípa til frekari aðgerða gegn Bandaríkjunum. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir 755 starfsmenn bandaríska sendiráðsins í Rússlandi verða rekna úr landi. Þá hugleiði hann að beita frekari aðgerðum gegn Bandaríkjunum sem andsvar við nýsamþykktum refsiaðgerðum Bandaríkjaþings gegn Rússum.

Stjórnvöld í Moskvu skipuðu bandarískum stjórnvöldum á föstudag að senda hundruð starfsmanna utanríkisþjónustunnar í Rússlandi úr landi.

Í viðtali við rússnesku sjónvarpsstöðina Vesti TV í dag sagði Pútín að 755 sendiráðsstarfsmenn og tæknilið yrðu að vera farin úr Rússlandi fyrir 1. september á þessu ári.

„Af því að rúmlega 1.000 starfsmenn – diplómatar og stuðningslið – voru og eru að vinna í Rússlandi. 755 þeirra verða að hætta starfi sínu þar,“ sagði Pútín að því er Reuters-fréttastofan greinir frá.

Refsiaðgerðirnar sem Bandaríkjaþing samþykkti í síðustu viku voru viðbragð við þeirri niðurstöðu bandarískra njósnastofnana að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á síðasta ári, sem og til að refsa Rússum fyrir innlimun Krímskaga árið 2014.

Pútín sagði Rússa geta gripið til frekari aðgerða gegn Bandaríkjunum en það yrði ekki gert strax.

„Í dag er ég er mótfallinn því að gera það,“ sagði hann og ítrekaði að refsiaðgerðir Bandaríkjanna væru skref í átt að versnandi samskiptum ríkjanna.

„Við biðum í töluvert langan tíma eftir því að mögulega myndi eitthvað breytast til hins betra. Við vorum að vona að aðstæður myndu breytast einhvern veginn,“ sagði Pútín. „En svo virðist að ef þær breytingar verði einhvern tímann sé það alla vega ekki í bráð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert