40 handteknir fyrir samkynhneigð

AFP

Yfir 40 karlmenn voru handteknir í Nígeríu um helgina fyrir samkynhneigð að sögn lögreglu í landinu. Mennirnir munu í framhaldinu þurfa að mæta fyrir dómstóla vegna kynhneigðar sinnar.

Samkvæmt nígeríska dagblaðinu Punch gerði lögregla áhlaup á hótel í Lagos-ríki í suðurhluta Nígeríu á laugardaginn og að því er blaðið greinir frá var hótelið afgirt á meðan rannsókn stóð þar yfir.

Kynferðisathafnir með einstaklingum af sama kyni eru refsiverðar í Nígeríu og getur refsing numið allt að fjórtán ára fangelsi. Hjónabönd samkynhneigðra eru einnig bönnuð í landinu sem og hvers kyns athafnir sem sýna ástúð milli einstaklinga af sama kyni. Í norðurhluta landsins geta þessi brot sætt dauðarefsingu.

Síðan yfirvöld í Nígeríu samþykktu lög gegn samkynhneigð og samtökum hinsegin fólks árið 2013, hafa laganna verðir gert atlögu að einstaklingum sem grunaðir eru um samkynhneigð. Þrátt fyrir þetta eru handtökur sem þessar óalgengar þar sem samkynhneigðir halda sig gjarnan í felum.

Samkynhneigðir lifa í stöðugum ótta og geta ekki tjáð kynhneigð sína opinberlega, njóta ekki verndar laga og er mismunað.  Þetta er ekki í fyrsta sinn sem handtökur eiga sér stað í Nígeríu en enginn hefur þó ennþá verið dæmdur í fangelsi vegna kynhneigðar að því er BBC greinir frá.

Sam­bönd tveggja karl­manna eru enn ólög­leg í 72 ríkj­um heims og sam­bönd tveggja kvenna sömuleiðis í 45 ríkj­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert