Móðir allra blóma er fundin

Blómið skartaði blómhlífarblöðum sem umkringdu bæði karl- og kvenkyns æxlunarfæri …
Blómið skartaði blómhlífarblöðum sem umkringdu bæði karl- og kvenkyns æxlunarfæri þess í miðju blómsins. Má því segja að blómið er bæði móðir og faðir allra blóma. AFP

Vísindamenn hafa uppgötvað móður (og föður) allra blóma sem kom fram á tímum risaeðlanna. Blómið var tvíkynjungur og var með líffæri sem líkjast krónublöðum sem röðuðust í hring í kringum miðjuna.

Talið er að bæði kvenkyns og karlkyns æxlunarfæri hafi verið í miðju blómsins og að þau hafi verið umkringd „hvirfingu“ þess sem líkist krónublöðum og eru kölluð blómhlífarblöð. Voru þau í þremur lögum. Þetta kemur fram í fræðitímaritinu Nature Communications. 

Skartaði blómhlífarblöðum í stað krónublaða

Flest blóm í dag eru með fjórar „hvirfingar“ þ.e. ytri lauf eða bikarblöð sem umlykja karlkyns æxlunarfæri þess, einnig kallað frævill. Kvenkyns æxlunarfærið, eða fræblaðið, er í miðjunni. 

Forfaðir blómanna hefur hins vegar ekki verið með aðskilin bikarblöð og krónublöð heldur skartaði þess í stað blómhlífarblöðum, blöndu beggja, utan um bæði æxlunarfærin í miðju þess. 

Túlípanar og liljur eru dæmi um blóm sem skarta blómhlífarblöðum.

Fyrsta skýra myndin af móður allra blóma

„Niðurstöðurnar eru gríðarlega spennandi,“ sagði Maria von Balthazar, sérfræðingur í formfræði blóma við Háskólann í Vínarborg, sem tók þátt í rannsókninni. „Þetta er í fyrsta sinn sem við höfum skýra mynd af fyrstu þróun blóma.“

Ekki er enn vitað hvernig blómið var á litinn, hvernig það lyktaði eða hversu stórt það var en talið er að það hafi verið minna en sentímetri á stærð.

AFP
mbl.is