Stjórnarandstæðingar handteknir í Venesúela

Leyniþjónusta Venesúela handtók í gærkvöldi tvo leiðtoga stjórnarandstöðunnar daginn eftir umdeildar kosningar.

Leopoldo Lopez og Antonio Ledezma voru báðir í stofufangelsi þegar þeir voru sóttir af leyniþjónustumönnum að sögn eiginkonu Lopez og barna Ledezma.

Stjórnarandstaðan í Venesúela sagði í gær að ekkert væri að marka yfirlýsingu kjörstjórnar um að kjörsóknin í umdeildum kosningum til stjórnlagaþings í fyrradag hefði verið 41,5%. Stjórnarandstaðan segir að 88% þeirra, sem voru á kjörskrá, hafi ekki greitt atkvæði. Hún segist ekki ætla að viðurkenna úrslit kosninganna og lýsir þeim sem skrefi í átt að einræði í landinu, samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag.

Stjórnarandstaðan hvatti Venesúelamenn til að halda áfram götumótmælum gegn áformum Niculás Maduros, forseta landsins, um breytingar á stjórnarskránni. Að minnsta kosti tíu biðu bana í mótmælunum á sunnudag og meira en hundrað til viðbótar hafa látið lífið síðustu fjóra mánuði í árásum öryggissveita á mótmælendur.

Talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði að atburðirnir um helgina hefðu „aukið áhyggjur hennar af örlögum lýðræðisins í Venesúela“. Framkvæmdastjórnin hefði miklar efasemdir um að hún gæti viðurkennt úrslit kosninganna.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna fordæmdi kosningarnar og sagði að gripið yrði til refsiaðgerða vegna valdboðsstefnu ráðamannanna í Venesúela sem græfu undan lýðræði og virtu mannréttindi að vettugi.

Efnt var til kosninganna til að kjósa stjórnlagaþing sem á að breyta stjórnarskránni. Andstæðingar forsetans segja að markmiðið með kosningunum sé að auka völd hans og koma í veg fyrir að hann missi embættið. Nýlegar skoðanakannanir í Venesúela benda til þess að aðeins um 20% styðji Maduro og 70% vilji ekki að stjórnarskránni verði breytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert