Sakaður um að stefna að einræði

Nicolas Maduro, forseti Venasúela, lýsir yfir sigri í kosningum til …
Nicolas Maduro, forseti Venasúela, lýsir yfir sigri í kosningum til stjórnlagaþings á sunnudaginn var. Kannanir benda til þess að aðeins 23% landsmanna vilji að stjórnlagaþing setji nýja stjórnarskrá. AFP

Nicolas Maduro er fyrrverandi strætisvagnastjóri og starfaði í verkalýðshreyfingunni áður en hann var valinn til að taka við stjórn landsins eftir að lærimeistari hans, sósíalistinn Hugo Chavez, dó drottni sínum fyrir fjórum árum. Hann er nú sakaður um að stýra landinu í átt að einræði til að halda völdunum og koma í veg fyrir að andstæðingar hans bindi enda á sósíalísku „byltinguna“ sem Chavez hóf á valdatíma sínum á árunum 1999 til 2013.

Þegar Maduro kemur fram opinberlega leggur hann sig fram um að minna landsmenn á að það var Chavez sem valdi hann sem eftirmann sinn. Hann klæðist oft rauðum æfingagalla, einu af táknum byltingarinnar, flytur ræður sínar fyrir framan myndir af byltingarleiðtoganum og hamrar á því að Venesúela þurfi að halda áfram á braut chavismans, hvað sem tautar og raular.

Maduro er þó enginn Chavez. Lærimeistari hans var gæddur miklum persónutöfrum og hæfileika til að vekja hrifningu, traust eða hollustu meðal almennings. Hann heillaði fólk með leiftrandi málflutningi og alþýðlegu viðmóti. Chavez naut einnig góðs af því að Venesúela er fimmti stærsti olíuútflytjandi heims og olíuverðið var hátt á valdatíma hans. Fjáraustur hans úr sjóðum ríkisins jók lýðhylli hans í góðærinu þótt ljóst væri að stefna hans gæti ekki gengið til lengdar.

Maduro skortir persónutöfrana og peningana sem Chavez hafði til að tryggja sér lýðhylli. Lægra olíuverð síðustu árin hefur stuðlað að snarversnandi lífskjörum og efnahagsóstjórnin hefur leitt til óðaverðbólgu. Chavisminn hefur beðið skipbrot og aðeins um 20% landsmanna styðja forsetann.

Úr strætó í forsetastól

Nicolas Maduro fæddist í Caracas 23. nóvember 1962. Hann ólst upp í verkamannahverfi í höfuðborginni og á unglingsárunum lék hann á gítar í rokkhljómsveit. Hann ók strætisvögnum í mörg ár í Caracas og var fulltrúi strætisvagnastjóra borgarinnar í verkalýðshreyfingunni. Þegar hann var 24 ára fór hann til Kúbu og gekk þar í skóla til að nema kenningar kommúnismans í eitt ár.

Maduro var kjörinn á þing Venesúela árið 1998 og varð forseti þess 2005. Hann var gerður að utanríkisráðherra ári síðar og var varaforseti frá 2012 og þar til Chavez lést. Hann sigraði síðan í forsetakosningum í apríl 2013 með aðeins 1,5 prósentustiga mun en forsetaefni stjórnarandstöðunnar neitaði að viðurkenna úrslitin vegna meintra kosningasvika.

Úr öskunni í eldinn

Síðan hefur allt gengið á afturfótunum fyrir forsetanum. 43 létu lífið í götumótmælum sem hófust í febrúar 2014 vegna versnandi lífskjara, efnahagsóstjórnar og fjölgunar glæpa. Óánægjan hélt áfram að magnast næstu misserin þegar olía lækkaði í verði og mikill skortur var á matvælum og lyfjum. Mið- og hægriflokkar fengu síðan mikinn meirihluta þingsæta í kosningum árið 2015.

Maduro og stuðningsmenn hans neituðu að deila völdunum og hófu tilraunir til að leysa þingið upp. Það leiddi til götumótmæla og átaka sem hafa kostað meira en 120 manns lífið á fjórum mánuðum. Forsetinn greip til þess ráðs að halda kosningar til stjórnlagaþings sem á að semja nýja stjórnarskrá. Stjórnarandstaðan sniðgekk kosningarnar og segir að markmiðið með þeim sé að koma á alræði Sósíalistaflokksins. Jafnvel nokkrir af nánustu bandamönnum forsetans hafa sagt honum að hann hafi gengið of langt.

Gæti vikið forsetanum frá

Þegar forsetinn tilkynnti áformin sagði hann að markmiðið með nýrri stjórnarskrá væri að koma á friði í Venesúela. Hann hefur hins vegar lítið sagt um hvernig stjórnarskráin eigi að vera. Andstæðingar hans óttast að Maduro og bandamenn hans noti tækifærið til að handtaka leiðtoga stjórnarandstöðunnar, kveða niður andóf og auka völd forsetans á kostnað þingsins.

Mótmæli hafa staðið yfir á götum borga í Venesúela mánuðum …
Mótmæli hafa staðið yfir á götum borga í Venesúela mánuðum saman. AFP

Eiginkona forsetans, Cilia Flores, sem var forseti þingsins á árunum 2006 til 2011, hefur gefið til kynna að stjórnlagaþingið eigi að stofna nefnd sem geti refsað þeim sem hafa staðið fyrir götumótmælum. Annar forystumaður í Sósíalistaflokknum hefur sagt að einnig sé stefnt að því að þeir sem eiga sæti í þjóðþinginu verði sviptir friðhelgi til að hægt verði að sækja þá til saka.

Landskjörstjórn Venesúela, skipuð stuðningsmönnum forsetans, hefur veitt stjórnlagaþinginu vald til að semja nýja stjórnarskrá frá grunni, leysa þjóðþingið upp og breyta núgildandi lögum. Fréttaskýrandi The New York Times segir að stjórnlagaþingið fái meiri völd en nokkur dæmi séu um í Rómönsku Ameríku frá því að herforingjastjórnir réðu lögum og lofum í mörgum löndum. Stjórnlagaþingið fær svo mikil völd að það gæti gert nánast hvað sem er, jafnvel vikið Maduro úr embætti forseta, að sögn sagnfræðingsins Alejandros Velascos, sem hefur sérhæft sig í sögu vinstrihreyfinga í Venesúela.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert