Vill stjórna án takmarkana

Nicolas Maduro tekur í hönd stuðningsmanns síns er kosningar til …
Nicolas Maduro tekur í hönd stuðningsmanns síns er kosningar til stjórnlagaþings fóru fram um helgina. AFP

Stjórnarandstöðuleiðtoginn Antonio Ledezma er kominn aftur í stofufangelsi í Venesúela eftir að hafa verið dreginn út af heimili sínu og handtekinn fyrr í vikunni. Eiginkona hans, Mitzy Capriles, tilkynnti þetta á Twitter í dag. 

Ledezma er borgarstjóri í Caracas. Hann var handtekinn á þriðjudag ásamt öðrum leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela, Leopoldo Lopez. Handtökurnar voru gerðar í kjölfar kosninga til stjórnlagaþings sem fram fóru að frumkvæði Nicolas Maduro forseta. Hundruð pólitískra fanga eru í haldi í landinu að sögn stjórnarandstöðunnar.

Stjórnlagaþingið verður valdameira en þingið og mun hafa það hlutverk að endurskrifa stjórnarskrá landsins. Maduro mun setja stjórnlagaþingið í dag í skugga ásakana um spillingu og að hafa lýðræðið að engu með gjörningi sínum.

Antonio Mugica, forstjóri Smartmatic, segir að átt hafi verið við …
Antonio Mugica, forstjóri Smartmatic, segir að átt hafi verið við niðurstöðu kosninganna um helgina. AFP

Valið var til þingsins í kosningum um síðustu helgi og mun það hafa aðsetur í höfuðborginni Caracas. Þingmennirnir eru yfir 500 og í þeirra hópi er Maduro sjálfur sem og eiginkona hans og sonur. Mikil spenna ríkir í landinu og hafa mótmæli staðið yfir mánuðum saman. Kjör almennings hafa hríðversnað og innviðir landsins eru að hruni komnir. Erfitt er t.d. að fá vegabréf í dag, fyrir þá sem vilja reyna að flýja óöldina.

Nú hefur stjórnarandstaðan boðað til fjöldamótmæla í höfuðborginni í dag og er óttast að átök brjótist út en meira en 125 manns hafa fallið í þeim síðustu fjóra mánuði. 

Maduro reyndi að fullvissa þjóð sína í gær um að allt væri til reiðu svo stjórnlagaþingið gæti hafið störf. Hann bað borgarana að láta ekki ögra sér. 

Vatíkanið er meðal þeirra sem hafa beðið um að innsetningu þingsins verði frestað. Páfagarður hefur einnig biðlað til öryggissveita Venesúela að sýna stillingu. 

Frá handtöku stjórnarandstöðuleiðtogans Antonio Ledezma fyrr í vikunni.
Frá handtöku stjórnarandstöðuleiðtogans Antonio Ledezma fyrr í vikunni. AFP

Stjórnlagaþingið markar tímamót við stjórnun Venesúela. Það mun hafa vald til að leysa upp þingið og breyta landslögum. Helsta hlutverkið er þó að endurskrifa stjórnarskrána frá árinu 1999 en hún var gerð undir stjórn Hugos Chavez, fyrirrennara Maduros.

 Maduro segir að stjórnlagaþingið eigi að koma Venesúela út úr þeirri stjórnmála- og efnahagskreppu sem ríkir um þessar mundir. Hann hefur hins vegar ekki sagt hvernig nákvæmlega farið verði að úrlausn mála. Þá hefur hann ekki sagt hversu lengi þingið eigi að starfa og hvenær hlutverki þess eigi að vera lokið. Hann hefur þó sagt að það muni starfa í nokkur ár.

Þessi ráðahagur hefur verið gagnrýndur úr mörgum áttum m.a. af breska fyrirtækinu Smartmatic, sem kom að tæknihlið kosninganna til þingsins um helgina. Forstjóri fyrirtækisins segir að átt hafi verið við niðurstöður kosninganna, m.a. hafi þátttakan verið ýkt um að minnsta kosti eina milljón kjósenda. Stjórnmálaskýrendur og fyrirtæki sem kannað hafa hug Venesúelamanna til málsins segja að yfirgnæfandi meirihluti sé andsnúinn stjórnlagaþinginu. Fæstir styðji Maduro áfram í embætti.

Flóttafólk frá Venesúela fær mat í búðum í nágrannalandinu Kólumbíu.
Flóttafólk frá Venesúela fær mat í búðum í nágrannalandinu Kólumbíu. AFP

Maduro hefur látið þessa gagnrýni sem vind um eyru þjóta og segir hana runna undan rifjum „alþjóðlegra óvina“ til þess eins að ríkissaksóknari Venesúela, sem hefur reynst Maduro erfiður, gæti hafið rannsókn á málinu.

 Ríkissaksóknarinn Luisa Ortega hefur gagnrýnt Maduro harðlega og segir að saksóknarar hafi lagt fram nokkur dómsmál til að reyna að fá kosningu til stjórnlagaþingsins ógilta en fáir Venesúelamenn hafa trú á að slíkt beri árangur. Hæstiréttur landsins hefur ítrekað tekið afstöðu með forsetanum í málum sem lögð hafa verið fyrir dómstólinn.

Maduro kemur fram í ríkissjónvarpi Venesúela daglega og hefur þar notað tækifærið til að skammast í leiðtogum þeirra landa sem hafa gagnrýnt hann. 

Nicolas Maduro nýtur enn stuðnings hersins og dómstólanna. Fjölmörg ríki …
Nicolas Maduro nýtur enn stuðnings hersins og dómstólanna. Fjölmörg ríki hafa gagnrýnt stjórnunarhætti hans. AFP

Bandaríkin hafa sett viðskiptabönn á landið og forsetinn Donald Trump hefur kallað Maduro einræðisherra. Maduro hefur svarað fyrir sig og einnig hellt úr skálum reiði sinnar yfir Mexíkó, Síle og Perú fyrir að neita að viðurkenna stjórnlagaþingið og ekki ætla að taka mark á ákvörðunum þess. 

Fleiri gagnrýnisraddir hafa heyrst, m.a. frá Evrópusambandinu. Ljóst er því að Maduro er að synda á móti straumnum jafnvel þó að hann njóti stuðnings Rússa og Kúbverja sem og ráðamanna í Bólivíu og Níkaragva.

Hörð mótmæli hafa staðið mánuðum saman í Venesúela. Í mótmælum …
Hörð mótmæli hafa staðið mánuðum saman í Venesúela. Í mótmælum vegna kosninganna til stjórnlagaráðsins um helgina kviknaði í lögreglumanni. AFP

Efnahagur Venesúela endurspeglar ólguna sem er í landinu. Gjaldmiðillinn, bólivar, veiktist um 17% gagnvart Bandaríkjadal í gær. Matvælaverð hefur hækkað upp úr öllu valdi sem og verð lyfja og annarra nauðsynjavara. 

 Maduro forseti nýtur enn stuðnings hersins í landinu og það gerir stöðu hans sterka enn um sinn að minnsta kosti. Sömu sögu er að segja um dómstólana. „Stjórnlagaþingið átti erfiða fæðingu en Maduro er sama. Hann vill bara stjórnlagaþing sem þóknast honum,“ segir álitsgjafinn Luis Salamanca við AFP-fréttastofuna. 

„Þetta snýst ekki aðeins um að breyta stjórnarskránni, þetta snýst um að stjórna án allra takmarkana,“ segir Benigno Alarcon, annar álitsgjafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert