Umsátur um skrifstofur ríkissaksóknara

Umsátur öryggissveita yfirvalda í Venesúela um skrifstofur ríkissaksóknara.
Umsátur öryggissveita yfirvalda í Venesúela um skrifstofur ríkissaksóknara. AFP

Öryggissveitir í Venesúela hafa umkringt skrifstofur ríkissaksóknara í höfuðborginni Caracas. Yfirsaksóknari segir að um umsátursástand sé að ræða. 

Í gær kom saman stjórnlagaþing í Caracas, ný stofnun sem hefur það hlutverk að endurskrifa stjórnarskrá landsins. Á þinginu eiga sæti 545 fulltrúar sem kjörnir voru í umdeildum kosningum sem fram fóru síðasta sunnudag.

Luisa Ortega, yfirsaksóknari hefur beðið beðið dómstóla um að stöðva vígsluna með vísan til gruns um að yfirvöld hafi átt við niðurstöður kosninganna til stjórnlagaþingsins. Henni hefur nú í framhaldinu verið vikið frá störfum.

„Ég er mótfallinn umsátrinu um aðalskrifstofu ríkissaksóknara,“ segir Ortega í færslu á Twitter í gær en hún er meðal helstu gagnrýnanda forseta landsins, Nicolas Maduro. „Ég fordæmi þessa einræðistilburði fyrir þjóðinni allri og alþjóðasamfélaginu,“ segir Ortega ennfremur.

Maduro forseti segir stjórnlagaþingið gegna nauðsynlegu hlutverki í þágu friðar í landinu, enda hafi ástand ríkt í Venesúela í kjölfar efnahagsþrengingum í landinu. Stjórnarandstaðan aftur á móti segir að svo virðist sem hin nýja stofnun gegni aðeins því hlutverki að auka völd forsetans.

Uppfært kl. 16:12:

Luisu Ortega hefur verið vikið frá störfum sem yfirsaksóknari í Venesúela. Það var stjórnlagaþingið sem samþykkti að henni yrði vikið frá völdum en hún er yfirlýstur andstæðingur Maduro forseta og það var hún sem hóf rannsókn á meintu misferli við kosningarnar til þingsins.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert