27 dæmdir til dauða fyrir Camp Speicher morð

Borgin Tikrit í Írak. Ríki íslams náði henni á sitt …
Borgin Tikrit í Írak. Ríki íslams náði henni á sitt vald 2014 og myrti í kjölfarið fjölda íraskra hermanna og setti myndir af morðunum á netið. AFP

Dómstóll í Írak hefur dæmt 27 menn til dauða fyrir þátt sinn í fjöldamorðum vígamanna Ríkis íslams á allt að 1.700 íröskum hermönnum í Camp Speicher í júní 2014.

25 menn, sem einnig voru grunaðir um aðild að morðunum, voru hins vegar látnir lausir vegna skorts á sönnunum að sögn fréttavefjar BBC.

36 menn voru dæmdir til dauða og hengdir vegna síns þáttar í morðunum í Camp Speicher fyrir ári síðan. Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams mynduðu drápin og birtu ljósmyndir og myndbandsupptökur á netinu sem sýndu hermönnum stillt upp og þeir síðan skotnir á ýmsum stöðum innan Camp Speicher búðanna, sem áður voru bandarískar herbúðir.

Talið er að flest fórnarlambanna hafi verið nýliðar í íraska hernum úr röðum síja múslima, sem voru við þjálfun í búðunum þegar Ríki íslams náði Tikrit á sitt vald.

Líkum mannanna var ýmist hent út í ána Tígris eða þau grafin í fjöldagröfum, sem fundust eftir að íraski stjórnaherinn náði borginni á sitt vald ári síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert