Eiga á hættu að vera nauðgað þrisvar

Barn á flótta frá Erítreu. Fyrsti viðkomustaður er yfirleitt Súdan …
Barn á flótta frá Erítreu. Fyrsti viðkomustaður er yfirleitt Súdan en svo er ferðinni heitið til Egyptalands eða Líbíu. Lokaáfangastaður er Evrópa. AFP

„Konur vita að þær eiga á hættu að verða nauðgað að minnsta kosti þrisvar sinnum áður en þær komast til Evrópu,“ segir Meron Estefanos, sænsk-erítreskur aðgerðarsinni um fólksflóttann frá Erítreu til Evrópu í samtali við Irin-fréttaveituna. Hún segir að konur og stúlkur fái sprautur til að hindra getnað áður en þær leggi á flótta. Þær vita hverju þær eiga von á.

Um 900 þúsund Erítreumenn hafa flúið heimalandið á síðustu árum eða um 10% þjóðarinnar. Þeir reyna að komast til Evrópu í gegnum Líbíu eða Egyptaland. Óöldin í Líbíu og uppgangur Ríkis íslams hefur orðið til þess að sífellt fleiri reyna að flýja í gegnum Egyptaland. Áhættan er mikil. Flóttafólkið er barið, því er nauðgað og jafnvel drepið. 

Hverfa sporlaust

Börn eru meðal þeirra sem flýja. Oft eru þau einsömul á flóttanum og upp á náð og miskunn annarra flóttamanna og smyglara komin. Í fyrra komu að minnsta kosti 25 þúsund fylgdarlaus börn til Ítalíu. Flest voru þau frá Erítreu. Ekki komast allir þeir sem flýja á leiðarenda. Börnin hverfa sporlaust á flóttanum. Hætturnar eru við hvert fótmál í eyðimörkinni og einnig í borgunum þaðan sem lagt er af stað yfir Miðjarðarhafið. Staða barna sem eru ein á flótta er sérstaklega viðkvæm. Þau eru beitt ofbeldi á leiðinni og þó að þau nái til Evrópu er framtíð þeirra ótrygg.

Zebib er sextán ára. Hún flúði Erítreu er hún var kvödd í herinn. Líkt og fleiri í þeirri stöðu gat hún ekki hugsað sér slíkt hlutskipti og ákvað að flýja. Hún flúði í nóvember í fyrra. Hún er nú stödd í Kaíró, höfuðborg Egyptalands. Óöryggið er mikið. Hún heldur til í íbúð ásamt fjölda annarra landa sinna. Hún segir að hópur karlmanna hafi brotist inn, ráðist á piltana og reynt að nauðga stúlkunum. 

Börn frá Erítreu í flóttamannabúðum í Súdan.
Börn frá Erítreu í flóttamannabúðum í Súdan. AFP

Göturnar eru stórhættulegar flóttabörnunum. Þar er oft ráðist á þau og áreitt og barin. „Fólk hrækir á mig,“ segir Yobieli, ungur piltur frá Erítreu sem einnig er staddur í Kaíró. 

Til að komast til Erítreu flýja flestir til Súdan og fara þaðan yfir eyðimörkina til Egyptalands eða Líbíu. Eyðimerkurförin er lífshættuleg. Ekki er óhætt að ferðast um einn síns liðs og smyglarar krefjast greiðslu fyrir fylgdina. Stundum tekst börnum á flótta að slást í för með öðrum. Því fylgir áhætta. Ekki eru allir velviljaðir og hjálpsamir.

Zebib og Yobieli ætluðu sér aldrei að dvelja lengi í Egyptalandi. Þau ætluðu aðeins að eiga þar stutta viðkomu og halda svo áfram til Evrópu. En annað hefur komið á daginn. Nú eru þau föst í Kaíró og vita ekki hvort og þá hvenær þau komast þaðan.

Í fyrra komu meira en 10 þúsund mann til Ítalíu frá Egyptalandi. Í kjölfarið fóru stjórnvöld í Egyptalandi að taka harðar á smygli á fólki og ólöglegum fólksflutningum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að um 8.000 Erítreumenn séu fastir í Egyptalandi og þeirra eina von til að komast til Evrópu eru í gegnum Líbíu. 

Bíða eftir aðstoð

„Leiðin til Evrópu er lokuð,“ segir Yobieli. „Leiðin til Líbíu er mjög hættuleg vegna vígamanna Ríkis íslams og annarra vopnaðra hópa. Það er líka mjög erfitt að vera hér í Egyptalandi.“

Hann bindur vonir við að fá aðstoð Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem vinnur að því að koma flóttafólki í Egyptalandi fyrir í öðrum löndum. Það verkefni gengur mjög hægt. Í fyrra tókst aðeins að flytja um 7.000 flóttamenn af þeim 260 þúsund sem eru í landinu til annarra öruggra landa. 

Börn eins og Yobieli og Zebib hafa því fá úrræði. Þau geta beðið í Egyptalandi í þeirri veiku von að fá aðstoð Flóttamannahjálparinnar eða þau geta farið til Líbíu og freistað þess að komast þaðan til Evrópu.

Baráttukonan Meron Estefanos, sem hefur látið sig málefni flóttafólks varða, segir að sífellt fleiri taki þá erfiðu ákvörðun að fara til Líbíu. „Núna eru allir að fara þangað,“ segir hún um flóttafólkið í Egyptalandi sem hefur margt hvert haldið þar til mánuðum saman og er orðið vonlítið um lausn sinna mála. 

Fáir kostir

Zebib vill komast í burtu. „Ég vil fara frá þessu landi. Við viljum fá vernd og öryggi.“ Hún á enga peninga til að borga smyglurunum. „Ég er háð öðrum. Ég get ekkert gert.“

Yobieli vonast enn eftir aðstoð Flóttamannastofnunarinnar. Á meðan hann bíður sækir hann kennslustundir í boði samtaka sem vinna að málum flóttafólksins. „Mig langar að klára skólann og verða kennari eða læknir,“ segir hann. „Markmið mitt var að komast til Evrópu og bæta líf mitt og hjálpa fjölskyldunni.“

Yobieli gæti þurft að bíða mjög lengi. Reynslan hefur líka kennt honum að flóttinn til Evrópu er ekki hættulaus. Bróðir hans lagði á flótta og hvarf svo sporlaust í Líbíu. Systir hans drukknaði á leið sinni yfir Miðjarðarhafið.

Hann getur ekki hugsað sér að snúa aftur heim. Þar bíður hans ekkert annað en fátæktarfen og herskylda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert