Karlar greiða meira fyrir kaffið

Kaffibollinn er dýrari ef kaupandinn er karl.
Kaffibollinn er dýrari ef kaupandinn er karl. AFP

Kaffihús í áströlsku borginni Melbourne hefur brugðið á það ráð að láta karla greiða meira fyrir kaffibollann en konur. Verðmunurinn er svipaður og launamunir kynjanna í landinu, 18%.

Á kaffihúsinu Handsome Her eru karlar beðnir um að greiða 18% meira fyrir bollann af kaffi en launamunur kynjanna í Ástralíu er 17,7% samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum.

Eigendur kaffihússins, sem hóf starfsemi í síðustu viku, vilja með þessu beina kastljósinu að launamun kynjanna. 

Konur greiða minna og fá forgang á sæti.
Konur greiða minna og fá forgang á sæti. AFP

Belle Ngien, framkvæmdastjóri Handsome Her, segir að þau hafi viljað benda á það augljósa og vekja umræðu um launamun kynjanna.

Ein af reglum kaffihússins er að konur hafi forgang á sæti og að þau 18% sem karlar greiði aukalega fyrir kaffið muni renna til hjálparsamtaka fyrir konur sem eru í neyð. 

Ekki hafa allir tekið þessum reglum fagnandi og segja að um mismunun sé að ræða en eigendurnir benda á að það sé hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann komi á kaffihúsið eður ei.



News.com.au

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert