Tilhugsun um stríð skelfileg

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Jim Mattis, segir að allt verði gert til þess að leysa kjarnorkudeiluna við Norður-Kóreu. Tilhugsun um stríð væri skelfileg. Viðbrögð Mattis eru ólík viðbrögðum forsetans, Donald Trump, sem segir að hugsanlega hafi hann ekki tekið nógu sterkt til orða þegar hann talaði um að svara hótunum Norður-Kóreu með eldi og brennisteini.

Trump sagði einnig í gær að Norður-Kóreubúar ætti að vera mjög, mjög órólegir varðandi afleiðingar ef það svo mikið sem hvarfli að þeim að ráðast á Bandaríkin. 

Í grein Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag er farið yfir stöðu mála á Kóreuskaganum 

„Norður-Kóreumenn sögðust í gær vera að undirbúa áætlun um að skjóta eldflaugum í átt að bandarísku eyjunni Guam á Kyrrahafi. Þeir hæddust að Donald Trump Bandaríkjaforseta og viðvörun hans um að hann myndi refsa þeim „með eldi og ofsabræði, sem heimurinn hefur aldrei séð áður“, héldu þeir áfram að hafa í hótunum við Bandaríkin.

Einræðisstjórn N-Kóreu hefur oft hótað að beita kjarnavopnum til að tortíma Bandaríkjunum í „eldhafi“. Hótanirnar hafa þó hingað til verið óljósar og þetta er í fyrsta skipti sem hún tilgreinir skotmark og skýrir frá áætlun um hvernig hún hyggist standa við hótunina.

Hótanir Trumps og ráðamanna í N-Kóreu hafa magnað spennuna á Kóreuskaga og óttast er að orðastríðið geti leitt til átaka, t.a.m. ef einræðisstjórnin í Pjongjang misskilur óljósar og ruglingslegar yfirlýsingar forsetans í Hvíta húsinu.

Yfirmaður eldflaugaherafla Norður-Kóreu, Kim Rak-gyom, sagði að ekkert væri að marka hótun Trumps því að hún væri „eintómt þvaður“. „Það er ekki hægt að tala af viti við slíkan mann sem er gersneyddur skynsemi.“

Báðir kostirnir hættulegir

Rak-gyom kvaðst vera að vinna að áætlun um að skjóta eldflaugum í átt að Guam. Gert er ráð fyrir því að fjórum meðaldrægum eldflaugum af gerðinni Hwasong-12 verði skotið og þær lendi um 30 til 40 km frá Guam.

Varnarmálasérfræðingar í Suður-Kóreu telja litla hættu á að eldflaugaskot Norður-Kóreumanna myndu geiga svo illilega að flaugarnar lentu á eyjunni. Eldflaugarnar gætu lent allt að fimm km frá skotmarkinu en ekki meira en það.

Flaugarnar myndu fara yfir Japan og stjórnvöld í Tókýó hafa heitið því að skjóta niður allar norðurkóreskar eldflaugar sem ógna landinu. Bandaríkjamenn hafa komið upp eldflaugavarnakerfinu THAAD í Guam, Japan og Suður-Kóreu. Ef Norður-Kóreumenn skjóta eldflaugunum er talið ólíklegt að bandarískum THAAD-gagnflaugum verði skotið frá Suður-Kóreu eða Japan því að þeim er ætlað að granda eldflaugum þegar þær eru komnar nær skotmarkinu. Skjóti Norður-Kóreumenn fjórum eldflaugum samtímis er ekki víst að THAAD-gagnflaugar frá Guam dugi til að granda þeim öllum.

Fréttaveitan AFP hefur einnig eftir varnarmálasérfræðingum að ef Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, fyrirskipi að eldflaugum verði skotið á Guam standi Bandaríkjamenn frammi fyrir tveimur kostum sem geti báðir reynst hættulegir. Ákveði þeir að reyna ekki að skjóta flaugarnar niður geti það grafið undan trúverðugleika bandarískra stjórnvalda og orðið til þess að N-Kóreumenn gengju lengra og skytu langdrægri flaug að meginlandi Bandaríkjanna. Reyndu Bandaríkjamenn að granda eldflaugunum án þess að hæfa þær allar myndi það grafa undan trausti Bandaríkjamanna og samstarfsríkja þeirra á eldvarnakerfunum.

Íhuga fyrirbyggjandi hernað

Yfirlýsingar Trumps og ráðherra hans í Kóreumálinu hafa verið misvísandi og þær benda til þess að djúpstæður ágreiningur sé í ríkisstjórninni um hvernig taka eigi að málinu, að mati stjórnmálaskýrenda The New York Times. Þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, H.R. McMaster, hefur sagt að til greina komi að hefja fyrirbyggjandi hernað til að koma í veg fyrir að Norður-Kóreumenn þrói flaugar sem hægt væri að nota til kjarnorkuárása á meginland Bandaríkjanna. Þeir sem styðja slíkan hernað segja að markmiðið yrði að valda her Norður-Kóreu svo miklum skaða að hann gæti ekki haldið áfram þróun kjarnavopna. Árásirnar gætu einnig orðið til þess að yfirmenn hersins steyptu Kim Jong-il af stóli.

Ágreiningurinn í stjórn Trumps er eðlilegur því að slíkum hernaði myndi fylgja mikil áhætta. Óttast er að Norður-Kóreumenn svari með mannskæðum sprengjuárásum á Suður-Kóreu því að ólíklegt er að Bandaríkjaher geti afvopnað einræðisstjórnina algerlega á fyrsta degi hernaðarins.

N-Kóreuher hefur komið upp stórskotavopnum til að gera árásir á Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu. Íbúar hennar eru um tíu milljónir og hún er aðeins 55 km frá landamærunum að Norður-Kóreu. Oft er því haldið fram að N-Kóreuher gæti lagt Seúl í rúst á nokkrum klukkustundum en ólíklegt er að það geti gerst. Aðeins langdrægustu stórskotavopn þeirra draga til Seúl og talið er að tiltölulega auðvelt yrði fyrir her Suður-Kóreu að finna og eyðileggja þau. Mikið mannfall gæti samt orðið, einkum ef norðurkóreskar hersveitir yrðu sendar yfir landamærin. Auk stórskotavopnanna eiga Norður-Kóreumenn kjarnorkusprengjur, efnavopn og hugsanlega einnig sýklavopn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Vantar gæslu fyrir kisu/kisann?
www.kattholt.is rekur hótel fyrir kisu/kisann. kattholt@kattholt.is // s;567 ...
Stimplar
...
Vönduð vel búin kennslubifreið
Vönduð, vel búin kennslubifreið Subaru XV 4WD . Akstursmat og endurtökupróf. Gyl...
 
Frestun aðalfundar
Fundir - mannfagnaðir
Frestun aðalfundar ?? ??? ?????????...
Mat á umhverfisáhrifum
Tilkynningar
Mat á umhverfisáhrifum Álit...
Tillaga að deiliskipulagi
Tilkynningar
Breiðdalshreppur Tillaga ...
Skipulagsmál
Tilkynningar
Rangárþing ytra Auglýsing um skipulags...