Kjöti skipt út fyrir sveppi í umsátursástandi

Það er mikill raki í herberginu þar sem Abu Nabil skoðar perluhvíta sveppi sem vaxa í hvítum plastsekkjum sem hanga niður úr loftinu. Ostrusveppina ræktar hann í bænum Douma í Sýrlandi, sem hefur búið við umsetursástand undanfarin ár. Sveppirnir eru nú nýttir í stað kjöts við matargerð, en vegatálmar sýrlenska stjórnarhersins hafa leitt til matarskorts í Douma.

Nabil gengur á milli sekkjanna og skoðar sveppaþyrpingarnar sem þar vaxa og tryggir að hitastigið sé rétt.

Svepparækt er ekki algeng í Sýrlandi og sveppir ekki algengt hráefni í þarlenda matargerð.

Kjöt er hins vegar orðið sjaldséð hráefni fyrir íbúa í austurhluta Ghout-héraðs, sem er á yfirráðasvæði hryðjuverkasamtanna Ríkis íslams þar sem umsetursástand hefur ríkt undanfarin ár.

Einn af liðsmönnum Adala góðgerðarsamtakanna fylgist hér með svepparæktina.
Einn af liðsmönnum Adala góðgerðarsamtakanna fylgist hér með svepparæktina. AFP

Leituðu próteingjafa í stað kjöts

Forsvarsmenn Adala-góðgerðasamtakanna, sem þar eru staðsett, fóru því að velta fyrir sér hvernig hjálpa mætti fólki að fá nauðsynleg næringarefni með öðrum hætti.

„Við fórum að rækta sveppi af því að þetta er matur sem hefur hátt næringargildi, svipar til kjöts og hægt er að rækta inni í húsum og í kjöllurum,“ segir Nabil, sem er verkfræðingur og stjórnandi svepparæktunarinnar.

„Við vorum að leita að góðum próteingjafa og steinefnum sem nota mætti í staðinn fyrir kjöt, sem er orðið mjög dýrt,“ segir Muayad Mohieddin, stjórnandi Adala.

„Við rákumst þá á sveppina sem mögulega lausn.“

Umsátursástand hefur ríkt í austurhluta Ghouta frá því 2013. Frá þeim tíma hafa íbúar því þurft að reiða sig á mat sem framleiddur er í héraði eða sem smyglað hefur verið inn með ærnum tilkostnaði. Ghouta var eitt sinn mikilvægt landbúnaðarhérað í Sýrandi og sveppir hvergi ræktaðir.

Sveppa
Sveppa"fræjunum" er hér blandað saman við blautt stráið sem síðan er sett í sekkina. AFP

Sveppir óþekktir fyrir stríð

„Þessi tegund ræktunar var með öllu óþekkt í Ghouta fyrir stríðið,“ segir Mohieddin. „Við fréttum af henni í gegnum netleit að stöðum í svipuðum aðstæðum nú eru í Ghouta,“ útskýrir hann.

Leitin leiddi í ljós að hvorki þurfti mikið rými né né mikla fjárfestingu til að hefja svepparækt, auk þess sem það hentaði þörfum íbúa vel.

Til að hefja svepparæktina skera starfsmenn gæðasveppi í örþunnar sneiðar sem síðan er komið fyrir milli pappaspjaldsstykkja í sótthreinsuðum plastkössum.

Næstu 15-25 daga byrja sveppasneiðarnar að framleiða sveppagró sem síðan eru fjarlægð og blandað saman við sótthreinsað byggfræ til að búa til svonefnd „fræ“.

Þá eru strá soðin þar til búið er að dauðhreinsa þau og bleytan látin leka úr þeim á borði. Þá eru þau úðuð með gipsi til að stráin fari undir fræin.

Því næst er stráinu pakkað í sekki og sveppa„fræjunum“ dreift á milli.

Að þessu loknu er farið með sekkina í herbergi sem gengur undir nafninu hitakassinn, þar sem þeir eru látnir hanga niður úr loftinu í 25-45 daga. Hver sekkur nær að koma með 4-5 sveppauppskerur áður en það þarf að skipta þeim út.

Nota þarf sérstaka rafala til að halda hitastiginu stöðugu við 25 gráður og rakanum um 80%. Þar sem hefðbundið eldsneyti er dýrt og af skornum skammti í Ghouta hafa menn komið sér upp aðferð til að framleiða eldsneyti úr plastefnum.

Dreifa 1.300 kg af sveppum vikulega

Þrír mánuður eru nú frá því að svepparæktin hófst og dreifa liðsmenn Adala nú reglulega sveppum ókeypis til íbúa Douma og annarra staða í Austur-Ghouta.

Einn íbúa Douma notar hér sveppina sem hún fær afhenta ...
Einn íbúa Douma notar hér sveppina sem hún fær afhenta frá samtökunum til matseldar. AFP

„Við dreifum tæplega 1.300 kg af sveppum á viku til um 600 manns,“ segir Nabil. „Við dreifum þeim til fátækustu fjölskyldnanna, þeirra sem þjást af vannæringu eða eru með mænuskaða og þurfa verulega á næringarefnum að halda.“

Fjögurra barna móðurina Um Mohammed munar verulega um sveppagjafirnar, þar sem hún hefur ekki efni á kjöti. „Það er sannkölluð blessun ef maður getur fengið sveppi,“ segir hún.

„Þetta er eins og maður sé að borða fisk-, kjúklinga- eða kjötrétt,“ bætir hún við.

Lærði að elda á netinu

Abu Adnan al-Sidawi hafði aldrei bragðað sveppi áður en hann fékk þá afhenta frá liðsmönnum Adala.  „Ég fékk skál af sveppum fyrir þremur eða fjórum vikum,“ segir Sidawi, sem margbrotnaði á fæti í loftárás í apríl.

„Ég vissi ekki hvað þeir væru og hafði aldrei borðað þá áður, en lærði að elda þá með aðstoð internetsins,“ útskýrir hann.

„Fyrsta daginn steikti ég þá með lauk og annan daginn eldaði ég þá í jógúrtsósu. Sveppir eru lostæti eldaðir og okkur líkar vel að elda þá í jógúrtsósu,“ segir hann brosandi.

mbl.is
https://www.funiceland.is - Ferðavefur
FunIceland.is er ferða- og upplýsingavefur um náttúru Íslands. Skoðaðu vefinn m...
Bátakerru stolið
Þessari kerru var stolið um Hvítasunnuhelgina í bryggjuhverfinu í Reykjavík. Þei...
LOFTASTIGAR _ LÚGUSTIGAR _ LÍKA EFTIR MÁLI
Vel einangraðir lofta/lúgu stigar, 68x85 og 55x113, smíðum líka eftir máli. Álst...
Teikning eftir Mugg til sölu
Teikning eftir Mugg til sölu, úr Sjöundi dagur í paradís, blýants og tússteiknin...
 
Aðalfundur
Fundir - mannfagnaðir
Félag sjálfstæðismanna, Langholti ...
Úthlutun
Tilkynningar
Auglýsing vegna úthlutunar byggð...
Samkoma
Félagsstarf
Söngsamkoma kl. 20 í Kristni- boðssalnu...
Mat á umhverfisáhrifum
Tilkynningar
Mat á umhverfisáhrifum Athu...