Ógnað af Trump en sameinaðir í fótbolta

Á hverjum laugardegi kemur hópur unglinga saman í Bronx og spilar þar saman fótbolta í Sambandsdeildinni svokölluðu.  Allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa komið foreldra-, skilríkja- og peningalausir frá Mið-Ameríku til Bandaríkjanna, en þeir hafa flúið ofbeldi og fátækt í heimalandinu.

Núna er útlit fyrir að um 50 af leikmönnum Sambandsdeildarinnar kunni að verða sendir úr landi.

Fótboltinn hefur reynst börnunum eins konar hópmeðferð – staður þar sem þau hafa getað um stund gleymt hörmungum fortíðar og hættunni á brottflutningi sem nú blasir við þeim eftir að Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta.

„Á meðan maður spilar fótbolta, þá er maður ekki að hugsa um hælisumsóknina, fólkið heima sem vill manni illt eða að dómari kunni að senda mann úr landi,“ segir Elvis Garcia Callejas, sem er bæði þjálfari og ráðgjafi leikmanna. „Maður er að eltast við boltann og takmarkið er að sigra, leika sem lið og skemmta sér.“

Teófilo Chávez fyllir úr pappíra með hjálp þjálfarans og ráðgjafans ...
Teófilo Chávez fyllir úr pappíra með hjálp þjálfarans og ráðgjafans Elvis Garcia Callejas. Chavez þykir efnilegur leikmaður og dreymir um atvinnumennsku. AFP

Byrjaði með þrjá drengi og ruslatunnur

Garcia Callejas, sem er 27 ára í dag, stofnaði Sambandsdeildina árið 2014. Það ár kom metfjöldi foreldralausra barna til Bandaríkjanna í gegnum Mexíkó, tæplega 70.000 börn.

Hann er nú ráðgjafi hælisleitenda hjá kaþólskum góðgerðarsamtökum, en sjálfur kom hann til Bandaríkjanna einn síns liðs er hann var 15 ára gamall. Hann er líka mikill fótboltaunnandi og skrifstofa hans er skreytt fánum frá uppáhaldsliðum hans - Barcelona og Paris Saint-Germain. 

Hluti af starfi Garcia Callejas felst í því að heimsækja miðstöðvar hælisleitenda og taka viðtöl við nýkomin börn og kanna hvort þau eigi rétt á einhverri vernd.

Þegar Garcia Callejas stofnaði deildina voru leikmennirnir bara þrír drengir frá Hondúras og þeir notuðu ruslatunnur sem markpósta. Núna eru leikmennirnir meira en 50 talsins og koma frá hinum ýmsu ríkjum Mið-Ameríku og deildin nýtur stuðnings fótboltafélagsins South Bronx United.

„Börnin sem við erum að vinna með verða fullorðin mjög hratt,“ segir Garcia Callejas. „En á fótboltavellinum þá geta þau orðið börn á ný.“

200.000 fylgdarlaus börn á þremur árum

Frá því 2014 hafa rúmlega 200.000 fylgdarlaus börn og unglingar komið til Bandaríkjanna frá Mexíkó og ríkjum Mið-Ameríku samkvæmt tölulegum upplýsingum bandarísku landamærastofnunarinnar.

Elvis Garcia Callejas, í rauða bolnum, ræðir hér við leikmenn. ...
Elvis Garcia Callejas, í rauða bolnum, ræðir hér við leikmenn. Hann er ráðgjafi og þjálfari liðsins. AFP

Hinn 17 ára Teofilo Chavez er einn þeirra. Hann var 14 ára þegar hann fór frá Hondúras til að búa hjá frænku sinni og frænda í Bronx. Hann þykir nú efnilegur leikmaður og dreymir um að komast í atvinnumennsku.

„Þetta eru fyrstu vinirnir sem ég eignaðist í þessu landi – þessi vinátta mun endast að eilífu,“ segir Chavez um drengina í deildinni.

Drengirnir verða að fara með mál sitt fyrir dómstóla ætli þeir að fá leyfi til að dvelja í Bandaríkjunum. Bandarísk stjórnvöld útvega þeim þó ekki lögfræðiaðstoð og flestir reiða sig því á lögfræðinga sem taka að sér mál án greiðslu.

Lögfræðingurinn Jodi Ziesemer, sem er nú með mál um 700 mið-amerískra ungmenna á sinni könnu, er einnig að aðstoða Chavez og útlit er fyrir að honum takist að fá græna kortið svonefnda.

60% fá enga lögfræðiaðstoð

60% allra fylgdarlausra barna fara hins vegar fyrir dómara og saksóknara án nokkurrar lagalegrar aðstoðar og mörg hver tala jafnvel ekki ensku. Nokkuð sem Ziesemer segir vera fáránlegt og táknmynd þess að „kerfið sé bilað“.

„Þessi börn eru að flýja hræðilegar aðstæður. Þau eru að flýja líflátshótanir,“ segir hún og bendir á að ástandið hafi versnað eftir að Trump tók við forsetaembættinu. Eitt af kosningaloforðum hans var að vísa milljónum ólöglegra innflytjenda úr landi.

Ungur leikmaður frá Gvatemala með yngri bróður sínum og móður. ...
Ungur leikmaður frá Gvatemala með yngri bróður sínum og móður. Leikmenn Sambandsdeildarinnar eru nú rúmlega 50 talsins og koma frá hinum ýmsu ríkjum Mið-Ameríku AFP

Trump hefur þá tengt unga innflytjendur við vöxt götugengisins MS-13, sem hann hefur heitið því að uppræta.

„Fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar þá voru saksóknarar mun samvinnuþýðari, en ekki virkir í baráttunni fyrir því að senda burt ung börn, eða börn sem eru í meðferð eða þurfa læknisaðstoð,“ segir Ziesemer.

Kom í leit að framtíð

Yngsti leikmaðurinn í Sambandsdeildinni er hinn 15 ára gamli Yefri, sem kom frá Gvatemala fyrir þremur mánuðum ásamt 11 ára bróður sínum.

„Ég kom í leit að framtíð, af því að ég á enga slíka í mínu landi,“ sagði Yefri sem enn er ekki kominn með lögfræðing og vildi því aðeins gefa upp skírnarnafn sitt.

Hann ber enn ör á enni eftir liðsmenn gengisins sem reyndu að þvinga hann til liðs við sig. Hann býr nú með móður sinni, sem hann hafði ekki séð í níu ár en hvetur hann nú ötullega áfram af hliðarlínunni.

„Þessir strákar eiga allir svipaða reynslu að baki. Þeir skilja hver annan og hjálpa hver öðrum,“ segir hún. „Þetta er raunverulegt samband og yndislegt sem slíkt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Frá Sýrlandi til Evrópu - Greinaflokkur

Ræstingavagn
Til sölu 2 Ræstingavagnar fást báðir fyrir kr: 8,900,- Voru keyptir hjá Rekstrar...
Gámasliskjur
Eigum nokkrar nýjar gámasliskjur fyrir 6000 kg burðargetu. Eru á lager og til a...
 
Vantar þig trésmið
Iðnaðarmenn
Vantar þig trésmið? Úrræðagóður húsa...
Aðalfundur isnic 2018
Fundir - mannfagnaðir
Aðalfundur ISNIC 2018 Aðalfundur Inter...
Eldri borgarar
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, for...
Félagsstarf aldraðra
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, jóg...