Ástríðufullu blaðakonunnar enn saknað

Sænska blaðakonan Kim Wall er þrítug. Hún hefur mikla reynslu …
Sænska blaðakonan Kim Wall er þrítug. Hún hefur mikla reynslu sem blaðamaður og hefur farið um allan heim til að afla frétta. AFP

Þrátt fyrir ungan aldur er Kim Wall, sænska blaðakonan sem ekkert hefur spurst til í fimm daga, reynslumikil og hefur unnið fyrir stóra fjölmiðla víða um heim. Hún býr ýmist í Peking eða New York og hefur dvalið í Afríku, Asíu og á eyjum Kyrrahafsins við fréttaöflun. „Kim er einbeitt, metnaðarfull og ástríðufull í sínu starfi,“ sagði fjölskylda hennar í viðtali við Aftonbladet. 

Wall fór um borð í kafbátinn Nautilus á fimmtudagskvöld ásamt frumkvöðlinum og eiganda bátsins, Peter Madsen. Hún var þangað komin til að skrifa grein um bátinn og sigldu þau Madsen frá höfn í Kaupmannahöfn klukkan 19 að staðartíma. Er ekkert hafði spurst til hennar klukkustundum saman tilkynnti fjölskylda hennar um hvarfið klukkan 2.30 aðfaranótt föstudagsins.

Samband náðist loks við kafbátinn að morgni föstudags. Madsen sagði þá að vegna tæknilegra vandamála hefði ferðin dregist á langinn. Hann var þá staddur við Drog­d­en-vita í Køge-flóa og ætlaði að sigla til hafnar. Það tókst ekki og var honum bjargað um borð í vélbát sem átti leið hjá. Kafbáturinn sökk hins vegar stuttu síðar.

Mynd af Peter Madsen og Kim Wall um borð í …
Mynd af Peter Madsen og Kim Wall um borð í Nautilus rétt eftir að þau lögðu úr höfn á fimmtudagskvöldið. AFP

Madsen var handtekinn á föstudag, grunaður um manndráp af gáleysi. Kafbátnum var lyft af sjávarbotni á laugardag og leit fór fram. Ekkert lík fannst og enn bólar ekkert á Kim Wall.

Vinkonur Kim segja að þótt hún sé forvitin að eðlisfari myndi hún aldrei fara út í aðstæður sem hún teldi hættulegar. Enda virtist ekkert benda til þess að hætta væri á ferðum. Hópur ungra Dana sá kafbátinn til dæmis á siglingu á Eyrarsundi um klukkustund eftir að hann lagði úr höfn. Þá stóðu Wall og Madsen í turni hans og veifuðu glaðlega til ungmennanna.

Unnið til verðlauna fyrir skrif sín

Wall er aðeins þrítug en hefur engu að síður mikla starfsreynslu. Hún hefur meðal annars farið til Norður-Kóreu, Srí Lanka og Haítí til fréttaöflunar. Á Haítí skrifaði hún um vöxt ferðaþjónustunnar eftir jarðskjálftana mannskæðu. Fréttir hennar og myndir hafa birst í Guardian, New York Times, South China Morning Post og tímaritunum Vice og Time svo dæmi séu tekin. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir skrif sín. Árið 2015 fékk hún Hansel Mieth-verðlaunin fyrir fréttir um áhrif loftslagsbreytinga á Marshall-eyjum sem Bandaríkin notuðu til tilrauna með kjarnorkusprengjur á árum áður.

Menntuð í fjórum löndum

Wall er frá Skáni. Hún hefur stundað nám í Sorbonne-háskóla í París, London School of Economics í London og Columbia-háskóla í New York þar sem hún lærði blaðamennsku.

„Síðan þá hefur allur heimurinn verið hennar starfsvettvangur,“ skrifaði fjölskylda hennar í í yfirlýsingu sem birt var í sænskum fjölmiðlum um helgina.

Coleen Jose, skólasystir Wall frá Columbia-háskóla, segist dást að hæfileikum Wall til að láta texta og ljósmyndir spila einstaklega vel saman. „Ef ég þyrfti að sigla yfir Kyrrahafið í brjáluðu veðri með einhverjum myndi ég velja hana,“ segir Coleen í viðtali við danska blaðið Politiken. „Hún er einn hugrakkasti og snjallasti blaðamaður og manneskja sem ég þekki. [...] Kraftur hennar, kímnigáfa og ástríða fyrir lífinu er smitandi.“

Peter Madsen (t.h.) ræðir við lögregluna í Dragør-höfn, suður af …
Peter Madsen (t.h.) ræðir við lögregluna í Dragør-höfn, suður af Kaupmannahöfn, á föstudag. Honum hafði þá verið bjargað úr kafbátnum Nautilus og í land. AFP

Menningarritstjóri sænska blaðsins Expressen vann greinar ásamt Wall um kosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember. „Kim er sjarmerandi, hvetjandi og áhugasamur blaðamaður. Hún er forvitin um fólk og menningarkima, hvort sem er Kínahverfið í New York eða svarta markaðinn í Havana. [...] Ég hugsa stöðugt um hana og vona að hún finnist á lífi.“

Lögreglan er engu nær um hvað orðið hefur um Kim Wall. Hún telur mögulegt að henni hafi verið komið í annan bát úti á Eyrarsundi og þaðan til útlanda, til dæmis Þýskalands. Það er því ekki útilokað að hún sé á lífi þó að áhersla lögreglunnar sé nú á að leita á hafsvæðinu þar sem kafbáturinn sást síðast. 

Greinar Kim Wall í Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert